top of page

Ósómi í Hæstarétti

  • Writer: Jón Steinar Gunnlaugsson
    Jón Steinar Gunnlaugsson
  • Nov 20, 2023
  • 3 min read

Við stofnun Landsréttar var gerð meginbreyting á skipan og starfsháttum dómstóla í landinu. Fólst hún fyrst og fremst í því að stofnaður var nýr dómstóll, Landsréttur, og var tilgangurinn sá að létta álaginu af Hæstarétti, sem var allt of mikið. Varð Landsréttur almennur áfrýjunardómstóll í stað Hæstaréttar sem aðallega skyldi framvegis dæma í málum sem rétturinn sjálfur veitti áfrýjunarleyfi fyrir. Þessar breytingar gengu í gildi 1. janúar 2018.

 

Á heimasíðu Hæstaréttar eru birtar ársskýrslur réttarins aftur í tímann. Þar kemur í ljós að dæmd mál voru um 760 á ári fram að þessum breytingum. Hafa ber í huga að ekki fór fram munnlegur málflutningur í kærumálum sem flutt voru skriflega. Þau gátu verið 2-400 á ári. Þá sátu 9 dómarar í réttinum en urðu 7 við breytingarnar. Frá og með árinu 2019 hefur rétturinn aðeins dæmt að meðaltali í 30-60 málum á ári. Þetta var fyrirsjáanlegt en samt var dómurum aðeins fækkað um tvo. Til samanburðar get ég nefnt að árið 2010, þegar ég var dómari við réttinn, dæmdi ég í u.þ.b 320 málum. Það voru að meðaltali 2 mál á hverjum starfsdegi mínum það ár.

 

Í viðbót við dómana veitir rétturinn áfrýjunarleyfi. Beiðnir um þær hafa verið 70-170 á árunum 2018-2022. Þrír eða fjórir löglærðir aðstoðarmenn eru í réttinum og tel ég víst að þeir geri drög að svörum við óskum um þessi leyfi, þannig að varla fer mikill tími hjá dómurunum í vinnu við þau. Þessar beiðnir eru afgreiddar skriflega og fer því ekki fram munnlegur málflutningur við afgreiðslu þeirra. Þá eru allmörg tilvik á þessum árum eftir breytinguna, þar sem varadómarar tóku sæti í dómsmálum sem flutt voru við réttinn.

 

Fimm í stað sjö

 

Við blasir að fækka hefði átt dómurum í fimm, svo sem var raunin á síðustu öld, þar til málafjöldinn fór að vaxa í kringum 1970.

 

Dómararnir sjálfir vildu við breytingarnar 2018 að fjöldi þeirra yrði sjö, þó að aðeins fimm dómarar ættu að sitja í dómi í flestum tilvikum. Það var auðvitað látið eftir þeim eins og jafnan er gert á Íslandi þegar svona mekilegir gæslumenn hagsmuna sinna óska þess. Þeir hafa bara viljað létta á starfsálaginu, líklega til að geta lifað náðugra lífi. Svo hafa þeir að auki viljað fá tækifæri til að sinna öðrum störfum við hliðina á dómsstörfunum. Um það eru mörg dæmi. Til dæmis eru tveir þeirra skipaðir eða settir í stöður prófessora við lagadeild Háskóla Íslands svo furðulegt sem það er. Ekki eru að minni hyggju þekkt mörg önnur dæmi um að sami maður hafi verið af ríkinu skipaður í tvær fullgildar stöður samtímis. Það ætti alls ekki að vera heimilt. Við fyrri tíðar skipanir hæstaréttardómara sögðu þeir, sem gegnt höfðu prófessorstöðum, störfum sínum lausum, þegar þeir fengu skipun sem dómarar. Dæmin eru svo um að dómararnir afli sér nú drjúgra tekna með öðrum störfum jafnhliða þægilegum dómarastörfum sínum.


Velja starfsbræður

 

Í viðbót við þessi ósæmilegu starfskjör dómaranna hafa þeir náð til sín og klíkubræðra sinna valdinu til að ákveða hverjir skuli verða nýir dómarar þegar embætti losna. Mörg dæmi eru um að þá séu valdir vinir eða skyldmenni. Umsagnir um hæfni umsækjenda breytast milli ára eftir því hverjir sækja um. Verðleikar í fyrri umsögnum hverfa fyrir öðrum þáttum. Þetta eru sýnilega aðferðir til að koma að vinum og skyldmennum en ekki þeim, sem öllum sem til þekkja er ljóst að eru hæfustu umsækjendurnir. Of langt mál yrði í þessari stuttu grein að reifa umsagnir um umsækjendur sem sótt hafa um dómaraembætti við réttinn.

 

Það er tillaga mín að þeir stjórnmálamenn sem um þetta þinga eigi að ganga í það verk að breyta lögum til að uppræta allan þennan ósóma. Þeir ættu að afla upplýsinga um heildartekjur dómaranna og hvaðan þær séu fengnar í einstökum tilvikum. Þessar upplýsingar ætti svo að birta almenningi, þó að ekki væri til annars en að menn geti við rekstur mála sinna vitað hvort einstakir dómarar teljist hæfir til setu sem dómarar í máli þeirra. Auk þess eru þetta upplýsingar sem almenningur á að mínum dómi rétt á að fá til aðhalds þessum valdamönnum íslenska ríkisins sem taka svo afdrifaríkar ákvarðanir um málefni fólksins.

 

Svo á auðvitað að fækka dómurum réttarins í fimm. Verkefnin kalla ekki á fleiri hæstaréttardómara. Þetta myndi líka spara umtalsverð útgjöld úr fjárvana ríkissjóði.

 

Þess skal getið að ég gaf út ritið „Veikburða Hæstiréttur“ á árinu 2013, þar sem gerð er ítarleg grein fyrir breytingum sem ég tel að gera þurfi á lagareglum um Hæstarétt, ef rétturinn á að geta staðið undir nafni.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

 
 

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin
bottom of page