Að undanförnu höfum við fengið að fylgjast með einhverjum misheppnaðasta stjórnmálamanni síðari tíma. Þar á ég við Svandísi Svavarsdóttur sem nú er orðin formaður Vinstri-grænna. Fyrir nokkrum dögum sagði þessi formaður að hún og flokkur hennar vildi halda áfram stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki og Framsókn undir stjórn Bjarna Benediktssonar fram á vor en þá vildi hún að þing yrði rofið og boðað til kosninga. Hún virtist telja sig hafa vald til að ákveða líftíma ríkisstjórnarinnar og tímasetningu kosninga. Aðallega er hún samt einfaldlega ofstækisfullur vinstri maður.
Nú þegar Bjarni forsætisráðherra hefur ákveðið að rjúfa þingið strax og kjósa í lok nóvember, fer Svandís á límingunum. Nú vill hún ekki einu sinni sitja í starfsstjórn með manninum sem hún vildi um síðustu helgi vinna með fram á vor í fullgildri ríkisstjórn. Hún segir sig núna frá því að setjast í starfsstjórnina, þó að föst hefð sé fyrir því að fráfarandi stjórnarflokkar sinni þeirri skyldu þegar þing er rofið. Aldrei hefur nokkur annar flokkur hagað sér þannig.
Þegar Svandís kemur fram í fjölmiðlum er hún ávallt uppfull af hroka og yfirlæti, þó að hún hafi svo sannarlega engin efni á því. Með þessari framkomu virkar hún fráhrindandi á kjósendur. Það eru sýnilega hrein mistök flokks hennar að hafa valið hana til forystu og það rétt fyrir kosningar, þegar stjórnmálamenn hafa hagsmuni af því að laða kjósendur að sér fremur að hrinda þeim frá sér.
Á undanförnum árum hefur þessi stjórnmálamaður oftsinnis brotið vísvitandi lagalegan rétt á mönnum og er stöðvun hvalveiða skýrasta dæmið um það. Hefur hún þá bakað ríkissjóði, eða öllu heldur almenningi í landinu, skaðabótaábyrgð sem mun valda háum bótagreiðslum. Segja má að hún skeyti hvorki um skömm né heiður, því hún hefur í reynd hafnað því að gegna starfi sínu á þann hátt að virða lagalegar skyldur sínar, eins og alþingismönnum ber að gera. Ef hún heldur að framkoma hennar dragi að sér kjörfylgi er það mikill misskilningur. Flestir kjósendur hafa hreina óbeit á stjórnmálamönnum sem haga sér eins og hún hefur gert. Það er óskandi að flokkur hennar þurrkist út af Alþingi í kosningunum framundan.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður