top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Ógnvænleg barátta gegn fíkniefnum

Updated: Jan 13


Að undanförnu hafa í sjónvarpi birst myndir sem sýna blóðuga styrjöld stjórnvalda gegn glæpamönnum sem framleiða og dreifa fíkniefnum. Þetta á sér ekki síst stað í ríkjum Suður-Ameríku. Nú síðast hafa borist ógnvænlegar fréttir um þetta frá Ekvador. Þar er fólk úr fíkniefnaheiminum svipt lífi í stórum stíl.

 

Baráttan gegn þessum efnum veldur líka miklum hörmungum á Vesturlöndum, þar á meðal á Íslandi. Þannig sjáum við hér á landi afbrotamenn fremja glæpi undir áhrifum þessara efna, þ.m.t. manndráp. Þessa dagana er í fréttum sagt frá hörmulegum örlögum konu á Selfossi sem fékk ekki læknishjálp um langan tíma vegna þess að maður, sem er jafnvel talinn hafa banað henni, kallaði ekki á hjálp, þar sem hann var upptekinn við að fela fíkniefni sín.

 

Sagan af baráttunni gegn fíkniefnunum er harmþrungin. Í stríðinu gegn þeim hefur gríðarlegur fjöldi fólks látið lífið, þar með talinn mikill fjöldi almennra borgara sem margir hverjir hafa í sjálfu sér aldrei verið sjálfviljugir þátttakendur. Þó að stefna margra ríkja hafi e.t.v. mildast á undanförnum árum, sýna rannsóknir að miklu fleiri láta lífið í þessu stríði heldur en myndu verða fíkniefnunum sjálfum að bráð ef þau yrðu einfaldlega leyfð eins og áfengi. Og margs konar annað böl fylgir hinni opinberu bannstefnu gegn fíkniefnunum. Haldið er lífi í undirheimum, þar sem glæpir þrífast og löggæslan ræður ekkert við. Ungmenni, sem leiðast út í neyslu, verða fórnarlömb glæpamanna. Þau fjármagna neysluna með glæpum og vændi. Efnin sem dreift er geta verið stórhættuleg meðal annars vegna þess að stundum er reynt að drýgja þau með íblöndun annarra efna. Og þó að afstaðan kunni að hafa mildast er árangurinn af þeirri viðleitni smávægilegur. Efnin flæða yfir á Vesturlöndum og yfirvöldin ráða ekkert við vandann.

 

Þjóðir heims ættu að taka sig saman um að breyta þeirri stefnu mannfórna sem þær flestar fylgja í þessum málaflokki. Það ætti hreinlega að leyfa að minnsta kosti flestar tegundir fíkniefna. Efnin yrðu þá framleidd undir vörumerkjum og dreift á almennum markaði eins og áfengið. Það er líka löngu sannað að þeir sem lenda í erfiðleikum vegna neyslu efnanna eiga sér miklu meiri von um bata með samskonar aðferðum og dugað hafa áfengissjúklingum, það er að fara í meðferð til að læra að skilja vanmátt sinn gagnvart þessum efnum og taka ábyrgð á eigin lífi.

 

Breytt stefna í þessum málum er til þess fallin að kippa fótunum undan starfsemi glæpamanna sem nærast á banninu og undirheimagróskunni sem það leiðir af sér. Það er löngu kominn tími til að þjóðir heims vakni og átti sig á því að stefnan sem fylgt hefur verið á þessu sviði er bara eins konar helstefna með glæpum og mannfórnum sem unnt er að draga úr svo um munar.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page