top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

„Í pólitík“


Fyrir liggur að matvælaráðherra braut af ásetningi gegn lögum þegar hún bannaði hvalveiðar s.l. sumar. Eftir að Umboðsmaður Alþingis gaf út álit sitt, en efni þess er hafið yfir allan vafa, hefur hún lýst berum orðum yfir, að lögin um hvalveiðar frá 1949 séu svo gömul að hún hafi ekki þurft að fara eftir þeim. Hún sé „í pólitík“ og þurfi hvorki að hlíta lögum né beita meðalhófi, svo sem henni var skylt að gera.

 

Fyrir liggur að fram verður borin þingsályktunartillaga um vantraust á ráðherrann, þegar Alþingi kemur saman eftir jólaleyfi síðar í þessum mánuði. Að undanförnu hafa fjölmiðlar, eins og eðlilegt er, spurt þingmenn stjórnarflokkanna hvort þeir hyggist styðja tillöguna. Þá víkur svo við að þeir, hver af öðrum, segjast ekki vera búnir að ákveða sig. Hvers vegna ætli það sé? Er einhver vafi á því að ráðherrann braut freklega gegn lögunum, eins og hann hefur sjálfur viðurkennt, og olli með því háu fjártjóni sem skattgreiðendum verður gert að greiða eftir að dómur hefur gengið um skyldu ríkissjóðs til að greiða þær?

 

Og þá kemur spurningin sem rís ef og þegar afgreiða á tillöguna um vantraust í þinginu. Málið liggur alveg ljóst fyrir. Ráðherrann braut gróflega af sér með þeim hætti að alþingismenn geta ekki verið í nokkrum vafa um afstöðu sína til tillögunnar um vantraust. Eru þingmennirnir „bara í pólitík“, eins og ráðherrann, þannig að hrossakaup milli stjórnarflokka geti valdið því að þingmennirnir muni skrifa upp á framferði ráðherrans með því að greiða atkvæði gegn tillögunni? Er pólitíkin í landinu svona gjörspillt?

 

Ástæða er til að taka fram að háttsemi ráðherrans braut bersýnilega gegn lögum nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð, sbr. 2.-4. og 8.-10. gr. þeirra. Samkvæmt þessum lögum geta brot gegn þeim bæði varðað ráðherra refsingu (11. gr.) og skaðabótaskyldu (13. gr.) vegna þess tjóns sem hann hefur valdið ríkissjóði. Kannski ráðherrann telji þessi lög svo gömul að þau gildi ekki lengur?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page