Yfirbót Sjálfstæðisflokks
- Jón Steinar Gunnlaugsson
- Dec 1, 2024
- 2 min read

Að loknum þessum Alþingiskosningum hlýtur að liggja fyrir að Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins muni mynda ríkisstjórn á Íslandi. Þetta verður klárlega meira og minna hrein vinstri stjórn.
Í þessu felast tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að ganga í endurnýjun lífdaga með hreinni andstöðu við slíka ríkisstjórn. Ekki veitir honum af.
Meðal þeirra stefnumála flokksins sem m.a ber nú að leggja áherslu á eru þessi helst:
1. Orkuvirkjanir. Þjóðin á marga kosti á að virkja fallvötn og jarðhita til raforkuframleiðslu. Framkvæmdir í þessum efnum hafa legið niðri árum saman vegna mótþróa samstarfsmanna í ríkisstjórn.
2. Málefni sem varða heimildir erlendra manna til að koma til landsins og festa hér búsetu. Að vísu hafa verið gerðar breytingar á lögum í því skyni að ná taki á þessum málaflokki. En þegar á reynir í einstökum málum virðist flokkurinn hafa stutt frávik frá lögunum án heimilda til að þóknast þeim sem hæst láta hverju sinni.
3. Heilbrigðismál. Hefja verður öfluga einkavæðingu heilbrigðisstofnana.
4. Fullveldi þjóðarinnar. Sést hafa merki um að fyrirsvarsmenn flokksins hafa viljað standa fyrir löggjöf sem skerðir fullveldi þjóðarinnar með alvarlegum hætti. Frá þessum tilhneigingum ber að hverfa hið snarasta.
5. Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda sýndi nýverið opinberlega fram á að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa á undanförnum árum nýtt stórfé úr ríkissjóði til að stofna til margháttaðrar starfsemi á vegum ríkisins, sem alls ekki ættu að vera á verkefnalista þess. Þessari þróun verður að snúa við með því m.a. að leggja slíkar stofnanir niður í stórum stíl. Þetta myndi þýða mikla fækkun ríkisstarfsmanna og sparnað á skattheimtu ríkisins.
6. Þessu síðast nefnda mun fylgja raunverulegt átak í lækkun skatta, t.d. með því að leggja niður sérskatta sem úir og grúir af í landinu.
7. Þessu gæti tilheyrt að láta einkaaðila annast starfsemi á ýmsum sviðum og heimila þeim að fjármagna starfsemina með gjaldtöku af þeim sem nýta hana.
8. Gera verður raunverulegt átak í að styrkja séreignarétt borgara á Íslandi á íbúðarhúsnæði.
9. Fyrir liggur að gera þarf átak í samgöngumálum. Það ber að fjármagna svo sem unnt er með því að láta þá sem nýta mannvirki á því sviði bera kostnaðinn í miklu meiri mæli en nú er.
10. Ríkinu ber að hætta rekstri fjölmiðla, m.a. með því að selja ríkisútvarpið og hætta að greiða ríkisstyrki til annarra fjölmiðla.
11. Hætta ber fjáraustri í loftlagsmál, sem engu skilar. M.a. ber flokknum að berjast gegn niðurdælingu á koltvísýringi sem vinnur gegn plöntugtóðri á jörðinni og sóar verðmætum. Loftslagshysterían er ein helsta birtingarmynd sósíalismans í dag.
12. Huga þarf að endurbótum í menntakerfinu, m.a. að endurvekja samræmd próf í grunnskólum.
13. Binda þarf endi á aðgang boðbera svokallaðra „hinsegin“ fræða að skólum og hætta með öllu stuðningi við svonefndan vókisma, t.d. trönsun á börnum og bann við kynjaaðgreindum salernum.
Með skýrri stefnu í þessum efnum gæti flokkurinn kannski endurheimt krafta Sigríðar Andersen, Snorra Mássonar og Bergþórs Ólasonar og fleiri kraftmikla boðbera frelsis og ábyrgðar.
Það þarf engan Miðflokk.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður