top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Vinátta

Það er varla ofsagt að góðir vinir eru hverjum manni nauðsynlegir. Sérstaklega á þetta við um þá sem þora að segja manni til syndanna þegar við á.


Ég hef verið heppinn, því ég á fjölmarga vini og hika sumir þeirra ekki við að segja mér löst á skoðunum mínum og háttsemi og gefa mér því tilefni til að bæta mig. Til dæmis er ég oft of orðhvass og tel það stundum fela í sér hreinskilni sem þjónar þörfum þeirra sem um er rætt. En þá kemur stundum til þess að góður vinur segir mig hafa gengið of langt; lengra en þörf krefji og hafi ég þá sært þann sem fyrir verður án þess að nokkur þörf hafi verið á því. Sé þetta tilfellið þarf ég stundum að bæta ráð mitt og biðja þann sem fyrir hefur orðið afsökunar á framkomu minni.


Sönn vinátta þjónar ekki alltaf þeim tilgangi að samsinna vininum í því sem hann hefur sagt eða látið frá sér fara, eins og svo margir gera. Á stundum getur slíkur stuðningur samt verið styrkur fyrir þann sem í hlut á. Sönn vinátta felst hins vegar ekki í að taka jafnan undir sjónarmið vinarins. Það er oftast misskilningur. Verðmætasti vinurinn er sá sem segir manni löst á framgöngu manns.


Í reynd má segja að sjálft lýðræðið feli í sér þá skipan að mismunandi sjónarmið manna séu ekki bara eðlileg heldur einnig æskileg. Þeir sem eru ósammála um eitthvert málefni skiptist þá á skoðunum með friðsælum hætti og freista þess þá að hafa uppbyggileg áhrif á hinn. Segja má að slíkt feli oftast í sér umburðarlyndi og sanngirni sem tilheyrir sannri vináttu.


Margir eiga hins vegar erfitt með að fylgja þessum viðhorfum. Þeir forherðast þá oft í meiningu sinni og eru þess ekki fúsir að slaka á þó að þeim sé sýnt fram á veilur í hugsunum sínum og ályktunum. Margir minna bestu vina gegnum tíðina hafa verið menn sem eru kunnir af því að vera á öndverðum meiði við mig í afstöðu til þjóðfélagsmála án þess að slík viðhorf hafi spillt vináttu þeirra við mig. Þeir hafa þá haft yfir þeirri skaphöfn að ráða að geta bent mér, sjálfumglöðum manninum, á að ég hafi farið villur vegar og þá oft sýnt öðrum óbilgirni. Fyrir slíkar ábendingar er ég þakklátur, þó að stundum geti reynst erfitt að fara eftir þeim.


Svo eru líka þeir sem taka á ósamlyndi við aðra með því að forðast samneyti við þá og hætta jafnvel tala við þá. Stundum getur það verið vegna þess að þeir vita ekki hvernig þeir eigi að rökstyðja sín öndverðu sjónarmið og þá sé þögn og samskiptaleysi besta lausnin. Slíka háttsemi ættu allir að forðast.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Comments


bottom of page