Um verðskuldað hrós
- Jón Steinar Gunnlaugsson
- Mar 27
- 2 min read

Í minningargrein sem ég skrifaði um vin minn og samherja Brynjólf Bjarnason lét ég þess getið að minningargreinar hefðu yfirleitt inni að halda upptalningu á kostum hins látna og lofsverðum athöfnum hans í lifanda lífi sem við öll gætum verið þakklát fyrir. Allt þetta er af hinu góða og hjálpar okkur við að varðveita minningu um þá sem við metum mikils fyrir verðmætt framlag til samfélagsins.
Þó að þetta sé rétt og verðskuldað ættum við líka að hugsa til þess að hinn látni hefur oft ekki fengið sjálfur í lifanda lífi að heyra hrós fyrir verðmætt framlag sitt til okkar allra sem hefði bætt lífskjör okkar á einhverju sviði sem hann lét til sín taka. Það er eins og við flest eigum léttara með að hallmæla öðrum fyrir einhverjar gjörðir sem við erum ekki sátt við en að lofa þá fyrir það sem vel hefur verið gert, Það er oft ekki fyrr en við andlátið sem við finnum til skyldunnar til að hrósa þeim sem í hlut á, þó að við höfum kannski aldrei gert það þannig að hann fengi sjálfur að heyra hrósið sem hann á skilið.
Og mér hefur dottið í hug að þessu ættum við að reyna að breyta. Við ættum miklu oftar en við gerum að leyfa öðrum að heyra hrósyrði frá okkur sem þeir eiga skilið vegna þess sem þeir hafa látið til sín taka og okkur líkar vel. Ég hef í seinni tíð stundum haft samband við fólk sem í hlut á og ég hef viljað láta finna ánægju mína fyrir gjörðir þess og stöku sinnum jafnvel látið þess getið á opinberum vettvangi.
En ég og við flest gerum allt of lítið af þessu. Ég er sannfærður um að hrósyrði af þessu tagi séu til þess fallin að hvetja aðra til góðra verka og þá um leið til að hafa jákvæð áhrif á samfélag okkar. Ættum við ekki öll að bæta ráð okkar og hrósa öðrum í heyranda hljóði fyrir það sem við teljum hafa verið vel gert?
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur