Einhverjum gæti þótt fróðlegt að fá yfirlit yfir þær aðferðir sem dómstólum er heimilt að beita við lausn á réttarágreiningi. Þar ber þeim að beita því sem við köllum heimildir réttarins eða réttarheimildir. Sjálf stjórnarskráin er þar efst á blaði og gildir framar almennum lögum ef á milli ber. Ef þessar heimildir duga ekki er gripið til annarra réttlægri heimilda svo sem stjórnvaldsfyrirmæla, sem verða að hafa stoð í settum lögum, meginreglna laga og eðlis máls, svo nefndar séu þær heimildir sem mestu máli skipta.
Margir Íslendingar, þ.m.t. sumir lögfræðingar, telja að hér á landi sé Maréttindasáttmáli Evrópu (MSE) æðri íslenskum lögum. Þannig eigi lög sem Alþingi setur að víkja fyrir sáttmálanum ef ekki er samræmi þar á milli.
Lög nr. 62/1994 kváðu á um að MSE skyldi hafa lagagildi hér á landi. Þessi lög hafa ekki að geyma sjálf ákvæði MSE heldur aðeins almenna tilvísun til þeirra. Samt hafa sumir haldið því fram lögin um sáttmálann hafi meira gildi en önnur almenn lög. Þau bindi hendur löggjafans (þess sama og samþykkti þau) til framtíðar og standi jafnvel framar sjálfri stjórnarskránni.
Þessi skoðun fær ekki staðist. Þegar athuguð er forgangsröð réttarheimilda er kannski einfaldast að athuga hvernig reglu, sem byggist á tiltekinni heimild, verði breytt. Stjórnarskráin stendur almennum lögum ofar og getur almenni löggjafinn (Alþingi) ekki breytt henni. Almenn lög standa réttarheimildum, eins og t.d. venjum, framar og verður þeim að sjálfsögðu breytt með settum lögum. Ef almenni löggjafinn gerði breytingu á lögunum frá 1994, t.d. með því að takmarka einhver réttindi sem MSE tryggir, kæmi það eitt til skoðunar, hvort slík breyting færi í bága við íslensku stjórnarskrána. Ef niðurstaðan yrði sú, að breytingin gerði það ekki, hefði hún fullt gildi að innanlandsrétti.
Það stenst ekki að telja lögin frá 1994, standa framar yngri almennum lögum. Í því fælist sú afstaða, að alþingismennirnir, sem lögin settu 1994, hafi bundið hendur þeirra alþingismanna sem á eftir þeim hafa komið. Hvergi er í stjórnlögum að finna neina heimild fyrir svona ályktun. Sama er að segja um úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), þær verða ekki sjálfkrafa að innanlandsrétti á Íslandi. Þetta er raunar berum orðum tekið fram í 2. gr. laganna frá 1994. Það breytir engu um þetta, þó að finna megi dæmi um ónákvæmni í orðalagi nokkurra dóma Hæstaréttar sem gætu talist gefa þetta til kynna.
Ástæðurnar fyrir því, að sumum íslenskum lögfræðingum virðist hafa orðið hált á þessu svelli réttarheimildanna eru líklega tvær. Í fyrsta lagi hefur íslenska stjórnarskráin inni að halda sérstakan kafla, þar sem mannréttindi eru vernduð. Sá kafli var reyndar „hresstur við“ 1995, m.a. til að samræma hann betur ákvæðum MSE. Ákvæðin um vernd mannréttindanna í þessum stjórnarskrárkafla eru auðvitað æðri almennum lögum, sem mega ekki fara í bága við þau. Það er eins og sumir lögfræðingar telji þessa æðri stöðu ákvæða um mannréttindi liggja í lögunum frá 1994 en ekki stjórnarskránni, og þá líklega vegna þess að um sams konar réttindi er fjallað í MSE, sem lögin frá 1994 vísa til. Hin ástæðan er líklega sú, að hér innanlands er fyrir hendi ríkur pólitískur vilji til að bregðast við úrlausnum MDE og breyta landsrétti ef dómstóllinn ytra telur að landsréttur brjóti í bága við ákvæði sáttmálans. Raunar höfum við gengist undir þjóðréttarlega skuldbindingu gagnvart öðrum aðildarríkjum sáttmálans um að gera þetta. Þennan pólitíska vilja er örugglega að finna hjá öllum stjórnmálaflokkum í landinu. Af þeim fáu dæmum sem fyrir liggja, hefur þetta jafnan orðið raunin. Við hefur verið brugðist hér innanlands af réttum aðilum. Kannski þetta sé í og með einnig ástæða fyrir þeirri torkennilegu skoðun, að almenni löggjafinn hafi bundið sínar eigin hendur í framtíðinni með setningu laga á árinu 1994?
Fyrir nokkrum árum flutti þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, ræðu um Mannréttindasáttmálann á fundi með lögfræðingum. Fór hann þá yfir meginatriði sem varða tengsl landsréttarins hjá fullvalda ríkjum og sáttmálans. Það sem hann sagði þar samræmdist því sem að framan segir og ætti að geta verið óumdeilt, svo skýrt sem það var og augljóst. Þá brá svo við að dagblað skrifaði forsíðugrein (26. september 2003), þar sem helst var gefið í skyn, að ráðherrann væri á móti mannréttindum! Naut blaðið þar tilstyrks frá lögfræðiprófessor, sem rétt áður hafði sótt um embætti hæstaréttardómara en ekki fengið. Lagði hann út af orðum ráðherrans á þann hátt, að „sumir valdhafar … virðist hafa tilhneigingu til að hafa horn í síðu Mannréttindadómstólsins, þar sem hann takmarkar vald þeirra“.
Þetta var sérkennilegur málflutningur svo ekki sé meira sagt. Þáverandi dómsmálaráðherra var stjórnmálamaður sem í starfi sínu hafði sýnt, að hann væri mikill áhugamaður um að tryggja vernd borgara fyrir misbeitingu ríkisvaldsins. Hann verðskuldaði ekki að menn veittust að honum með þeim hætti sem þarna var gert. Hann átti miklu fremur hrós skilið fyrir að vilja leggja áherslu á það meginatriði, sem íslensk stjórnskipan byggir á, að Ísland sé fullvalda ríki og það heyri undir lýðræðislega kjörin löggjafa í landinu að taka ákvarðanir um innlenda lagasetningu og alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður