top of page

Ofbeldi

  • Writer: Jón Steinar Gunnlaugsson
    Jón Steinar Gunnlaugsson
  • Oct 9, 2024
  • 2 min read

Var það ekki sumarið 2023, sem Svandís, þá matvælaráðherra, beitti fyrirtækið Hval hf. ólögmætu ofbeldi með því að stöðva hvalveiðar fyrirtækisins degi áður en vertíðin átti að hefjast? Þetta fyrirtæki hafði stundað þessar veiðar um margra áratuga skeið og fjárfest í búnaði og starfsmönnum fyrir háar fjárhæðir.

 

Lög kveða á um að leyfi þurfi til að mega stunda hvalveiðar. Fyrirtækið hafði fengið slíkt leyfi m.a. til að stunda veiðarnar á vertíðinni 2023. Enginn vafi var á að háttsemi ráðherrans braut freklega lagalegan rétt á fyrirtækinu.

 

Í ljós kom að ráðherranum var ljóst að þessi aðgerð var ólögmæt og þar með myndi hún valda ríkissjóði (skattgreiðendum) fjártjóni sem nema myndi svimandi háum fjárhæðum. Ráðherrann vísaði aðeins til huglægra sjónarmiða sinna um að stöðva ætti hvalveiðar við landið. Ljóst var og er að þeim sjónarmiðum verður ekki framfylgt nema með lagabreytingum sem heyra undir löggjafarvaldið en ekki ráðherra.

 

Það lá sem sagt fyrir að með athæfi sínu braut ráðherrann vísvitandi lögverndaðan rétt þessa fyrirtækis. Ekki var samt hróflað við ráðherranum úr embætti. Þar með tóku ríkisstjórnarflokkarnir að sínu leyti ábyrgð á þessari ólögmætu aðgerð, þ.m.t. Sjálfstæðisflokkurinn. Væri ráðherranum ekki vikið úr embætti fyrir þessar sakir, hefðu þær þegar í stað átt að valda slitum á stjórnarsamstarfi þeirra flokka sem mynduðu ríkisstjórn með flokki ráðherrans, Vinstri-grænum.

 

En það virðist vera gjaldgeng aðferð ráðandi flokka í ríkisstjórn á Íslandi að una framferði ráðherra sem allir vita að er ólögmætt og muni valda ríkissjóði háum bótagreiðslum. Þetta segir ófagra sögu af stjórnarfari í landinu.

 

Hafi ofbeldisfullur flokkur völd virðist hann geta beitt þeim ólöglega til að koma fram stefnumálum sínum í stað þess að freista þess að fá lögum breytt á Alþingi. Þessari valdbeitingu gegn hvalveiðum virðist hafa verið viðhaldið á þessu ári. Vegur Svandísar hefur nú vaxið því hún hefur verið kosin formaður stjórnmálaflokksins sem hýsir hana. Og ennþá situr hún í ríkisstjórninni.

 

Niðurstaðan er sú að það sé gjaldgeng aðferð í stjórn landsins að brjóta rétt á borgurum á kostnað almennings til að koma fram hugðarefnum sínum. Ætli svona framferði yrði látið óátalið í öðrum ríkjum sem vilja kenna stjórnarfar sitt við lögmæti? Svari nú hver fyrir sig.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

 
 

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin
bottom of page