top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Nýting orkuauðlinda



Náttúruauðlindir eru með verðmætustu eignum Íslendinga á sama tíma og aðrar þjóðir eiga þess ekki sama kost að framleiða umhverfisvæna orku. Þær verða að una við kol og olíu til framleiðslu á rafmagni. Náttúruverndarsinnar annarra landa horfa öfundaraugum til okkar, enda er vinnsla endurnýjanlegrar orku áhrifamesta aðgerðin gegn losun koldóoxíðs út í andrúmsloftið.


En ekki á Íslandi. Nú sitja við stjórnvöl þessara mála á Íslandi ráðamenn af vinstri væng stjórnmálanna, sem virðast hafa megna andúð á nýtingu þessara auðlinda. Þannig var a.m.k. um sinn fallið frá byggingu Hvammsvirkjunar í Þjórsá sem er mjög hagkvæm virkjun með mikla framleiðslugetu. Svo er að sjá sem þessir forhertu ráðamenn telji að bygging þessarar virkjunar muni spilla náttúru landsins. Þetta er ótækt sjónarmið. Öll mannvirki breyta ummerkjun á byggingarstað. Landsvirkjun, sem byggt hefur virkjanir okkar, er þekkt af því að ganga vel um umhverfi þeirra, og er það þessu fyrirtæki til sóma.


Við Íslendingar erum í þeirri forréttindastöðu að við okkur blasa hagkvæm tækifæri til þess að nýta orku fallvatna, vindorku og jarðvarma til raforkuframleiðslu. Þessi nýting fellur vel að markmiðum um minni losun koldóoxíðs og er þar að auki grundvöllur þess að að hér verði lífvænlegt atvinnulíf til frambúðar.


Það er undarlegt svo ekki sé meira sagt að þessi afturhaldssömu stjórnvöld skuli sitja í skjóli Sjálfstæðisflokksins, sem ætti að vilja framfarir á þessu sviði ef marka má almenn viðhorf flokksins. Kominn er tími til að losa þjóðina við þetta afturhald svo hægt sé að nýta þessar verðmætu orkulindir, okkur öllum til hagsbóta.


Þótt fyrr hefði verið.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur


bottom of page