Þegar dómari leitar að réttri niðurstöðu í máli sem hann dæmir, verður hann að
ganga út frá því aðeins ein niðurstaða sé rétt. Þó að fleiri en ein niðurstaða komi
til greina má hann ekki telja sér trú um að hann megi velja þá sem honum
hugnast best. Beiting réttarheimilda ræður en ekki persónuleg afstaða dómarans.
Dómstólar mega ekki byggja dóma sína á öðru en beitingu réttarheimilda sem í
gildi voru þegar atvik máls áttu sér stað. Margir lögfræðingar telja að honum sé
heimilt að byggja dóma sína á lögum sem síðar voru sett en voru ekki komin í
gildi þegar atvik máls urðu. Þetta er honum óheimilt.
Margir lögfræðingar, þ.m.t. viðurkenndir fræðimenn í lögfræði, halda því fram
að dómstólum sé heimilt að setja ný lög; jafnvel að þeir takist á við löggjafann
um lagasetninguna. Þetta er fjarstæða. Dómstólar hafa enga slíka heimild enda
er skýrt í stjórnarskránni að þeir skuli starfa eftir lögum. Þá er auðvitað átt við
lög sem í gildi voru þegar atvik máls urðu. Þeir hafa heldur ekkert umboð frá
almenningi til lagasetningar, eins og alþingismenn hafa.
Þessi sannindi um lögfræðilegar úrlausnir ættu sem flestir að þekkja til þess að
geta forðast misnotkun af hálfu þeirra sem fara með dómsvaldið í landinu.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður