Fallinn er nú frá sá maður sem ég hef haft hvað mest í hávegum á lífsferli mínum undanfarna áratugi, Þorsteinn Haraldsson löggiltur endurskoðandi. Hann hefur að undanförnu háð erfitt stríð við alvarleg veikindi sem nú hafa dregið hann til dauða.
Á árunum fyrir 1980 rak ég, ásamt Baldri Guðlaugssyni lögmanni og Sverri Ingólfssyni endurskoðanda, skrifstofu undir heitinu Lögmanns- og endurskoðunarstofa. Var hún staðsett á efstu hæð hússins Lækjargata 2, þar sem Nýja bíó var til húsa á neðstu hæð. Þetta hús brann síðar og er horfið af vettvangi. Á árinu 1980 kom Þorsteinn Haraldsson til liðs við okkur og varð hann fjórði eigandi stofunnar. Ég áttaði mig fljótlega á því að þarna fór einstakur afbragðsmaður og hefur hann verið náinn vinur minn alla tíð síðan. Þorsteinn bar með sér ferskan blæ og var drífandi við að koma á breytingum og lagfæringum á umhverfi okkar. Man ég sérstaklega eftir tvennu sem hann átti allan heiður af. Skipt var um peru á salerninu en gamla peran var ónýt þegar Þorsteinn kom til liðs við okkur og hafði svo staðið um nokkra hríð. Einnig stóð hann fyrir því að við festum kaup á heilli hæð í húsinu að Skólavörðustíg 12, innréttuðum hana undir hans stjórn og fluttum stofuna þangað. Af þessu hvoru tveggja varð mikil bragarbót eins og nærri má geta. Kannski sýnir þessi upprifjun á tveimur ólíkum málum forystuna sem hann tók í öllu því sem varðaði rekstur okkar og velferð.
Við Þorsteinn urðum strax nánir persónulegir vinir. Náði sú vinátta langt út fyrir verkefni stofunnar okkar. Man ég til dæmis vel eftir því hvernig hann hvatti mig áfram til góðra verka við að tjá mig opinberlega um það sem ég taldi að betur mætti fara í réttarkerfinu og raunar stjórn þjóðfélagsins á þeim árum sem liðin eru frá því að við kynntumst. Hefur staðið svo allt fram á þennan dag.
Sjálfur skrifaði hann bókina „Afglöp og spilling“, sem kom út á árinu 2020 og fjallaði um misnotkun valdsmanna í skattkerfinu, sem af einhverjum annarlegum ástæðum lögðu ekki háa skatta á tekjur af fjármálaumsvifum tiltekinna stórfyrirtækja. Var Þorsteini þá vegna málsins vikið úr starfi sínu hjá skattrannsóknarstjóra, þó að athugasemdir hans við þessa misnotkun hefðu ekki verið hraktar. Voru honum dæmdar bætur í Hæstarétti fyrir ólögmæta uppsögnina með dómi réttarins 14. október 2014. Þeir yfirmenn í skattkerfinu sem sekir voru um þessa valdníðslu voru hins vegar aldrei látnir bera ábyrgð á framferði sínu. Dæmigert fyrir Ísland eða hvað?
Ég er Þorsteini Haraldssyni eilíflega þakklátur fyrir vináttu hans, stuðning og hvatningu gegnum árin.
Eiginkona Þorsteins er Lára Júlíusdóttir lögmaður. Er aðdáunarvert hvernig hún hefur stutt hann og hjálpað í veikindunum að undanförnu. Ég heimsótti hann fyrir nokkrum dögum og sá með eigin augum þá umönnun sem hann fékk í þeim alvarlegu veikindum sem hann barðist við og hversu mikinn stuðning Lára veitti honum vakandi og sofandi.
Við Kristín og börnin okkar þökkum Þorsteini af alhug fyrir kynnin á undanförnum áratugum og vottum Láru og fjölskyldunni innilega samúð.
Jón Steinar Gunnlaugsson