top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Mannréttindabrot

Einn besti knattspyrnumaður þjóðarinnar, Albert Guðmundsson, er ekki gjaldgengur í landsliðið. KSÍ segir ástæðuna vera þá að á kjörtímabili síðustu stjórnar hafi menn vandað sig svo við reglusetningu að kæra um kynferðisbrot leiði til þess að leikmenn skuli sæta svona viðurlögum. Skiptir þá engu máli hvort brot hafi sannast. Í tilviki Alberts stendur svo á að kæran á hendur honum mun hafa hlotið meðferð hjá saksóknara með þeirri niðurstöðu að málið var fellt niður. Pilturinn neitaði sök og engin sönnunargögn voru til staðar um að hann hefði framið brotið. Kærandi brotsins mun hafa kært þessa niðurfellingu til ríkissaksóknara, sem hefur þá takmarkaðan tíma til að afgreiða málið. Þetta skiptir engu máli að lögum. Albert telst því saklaus af brotinu og ber öllum sem málið varðar að miða við þá réttarstöðu.


  En ekki KSÍ! Þar er hann beittur viðurlögum fyrir brot sem hann telst vera saklaus af! Nú ætti kæra um brot ekki að geta ein sér varðað menn nokkrum viðurlögum, því á Íslandi teljast menn saklausir þar til sekt er sönnuð. KSÍ beitir piltinn samt þungum viðurlögum. Það eru auðvitað þung viðurlög fyrir ungan knattspyrnumann að vera ekki talinn gjaldgengur af knattspyrnusambandinu í landslið okkar. Hann getur ekki leitað annað um landsliðssæti. Svo mun standa á í máli Alberts að konan sem kærði hann er sögð hafa skotið kæru sinni til ríkissaksóknara. Það málskot skiptir auðvitað engu máli um réttarstöðu leikmannsins. Hann telst saklaus af því refsiverða broti sem hann var kærður fyrir að hafa framið.


  KSÍ brýtur hreinlega á mannréttindum þessa pilts með því að ákveða að hann sé ekki gjaldgengur í landsliðið. Einstaklingar njóta mannréttinda, ekki hópar. Þessi leikmaður getur að mínum dómi höfðað mál á hendur þessu dæmalausa sambandi og gert kröfur a.m.k. um miskabætur. Mér er ekki kunnugt um fordæmi fyrir slíkri málsókn í réttarstöðu eins og þessari þar sem aðrir en sjálft ríkisvaldið brýtur á sökuðum manni, en tel líklegt að hún sé heimil. Reglur KSÍ um svona viðurlög án nokkurrar sönnunar um brot eru hreinlega ógildar. Menn geta ekki komið sér saman um að brjóta rétt á manni, sem samkvæmt lögum telst ekkert hafa brotið af sér.


  Hvernig stendur á því að landssamband íþróttaiðkenda í tiltekinni grein hagar sér svona? Þetta er ótrúlegt mál. Kannski handhafi saksóknarvalds ætti að freista þess að höfða opinbert mál á hendur fyrirsvarsmönnum KSÍ og krefjast þess að þeim verði refsað fyrir brot sín gegn leikmanninum?


  Íslendingar verða að láta af svona hátterni. Á mörgum sviðum, virðast menn telja rétt að brjóta á einstaklingum vegna fullyrðinga um afbrot sem viðkomandi maður telst saklaus af. Þeir sem slíkt gera eru hræddir um að valkyrjur af báðum kynjum muni ekki una réttlætinu, og þess vegna verði þeir að beita ranglæti til að ganga í augun á þeim. Vonandi taka landsmenn sig á.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page