top of page

Löngu tímabær fækkun dómara

Writer's picture: Jón Steinar GunnlaugssonJón Steinar Gunnlaugsson

Á árinu 2013 birtist ritgerð eftir mig sem bar heitið „Veikburða Hæstiréttur – verulegra úrbóta er þörf“. Þegar ritgerðin kom út var orðið ljóst að stofnað yrði millidómstig til að létta of miklu álagi af Hæstarétti. Þetta var gert með stofnun Landsréttar, sem tók þó ekki til starfa fyrr en 1. janúar 2018.


Dómarar við Hæstarétt voru níu fyrir breytingarnar en var ekki fækkað nema í sjö. Ljóst var frá upphafi að starfsálag í Hæstarétti myndi minnka verulega við breytinguna. Hafði ég haft orð á því í ritgerðinni 2013 að þeim mætti fækka a.m.k. í fimm.


Dómararnir töldu að þetta væri of mikil fækkun og töldu sjö hæfilegan fjölda dómara við Hæstarétt. Við athugun sem ég gerði á ársskýrslum réttarins, fyrir og eftir breytingarnar, kom hins vegar í ljós að starfsálag á hvern einstakan dómara. miðað við fækkun í sjö, varð aðeins um 25% af því sem það hafði verið fyrir breytingu. Ég benti á þetta og taldi að rétt hefði verið að fækka dómurunum a.m.k. í fimm með tilsvarandi sparnaði útgjalda. Í viðtali við fyrrverandi forseta Hæstaréttar 1. tbl. Lögmannablaðsins 2020 kom sama sjónarmið fram um minnkun á starfsálagi dómaranna við breytinguna. Man ég ekki eftir að hann hafi fyrr tekið undir tillögur mínar um betrumbætur á dómskerfinu! Segja má honum til afsökunar að þetta hafi hann ekki gert fyrr en hann var sjálfur hættur.


 rátt fyrir þessar óumdeildu staðreyndir gerðu sitjandi dómarar í Hæstarétti kröfu um að þeim yrði einungis fækkað í sjö. Virtust þeir sjá möguleika í að geta þá farið að föndra við önnur störf en dómssýsluna og þá aflað sér aukatekna með þeim hætti. Og þrátt fyrir ábendingar mínar lét ríkisstjórnin þetta eftir þeim. Allan tímann frá breytingu hafa dómararnir verið sjö talsins og hafa þeir því getað unnið önnur störf meðfram dómarastörfunum, eða sinnt öðrum hugðarefnum sínum að vild. Þessu hafa viðmótsþýðir ráðherrar úr Sjálfstæðisflokki stjórnað sem hafa gegnt embætti dómsmálaráðherra allan þennan tíma. Á þeim bæ virðist ekki skipta máli þó að varið sé a.m.k hundruðum milljóna í að gera silkihúfum í stjórnkerfinu til geðs.


Það er ekkert annað en spilling að hafa látið þetta eftir dómurunum. Eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum, sendi ég erindi til forsætis- og dómamálaráðherra með ábendingum um þetta. Og viti menn. Þeir hafa nú kynnt fyrir þjóðinni ákvörðun sína um að fækka dómurunum í fimm og því ber að fagna.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin
bottom of page