top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Kær vinur

Fyrir mörgum árum var Gylfi Baldursson, heyrnar- og talmeinafræðingur, makker minn í hinu göfuga brids-spili. Eins og margir muna sjálfsagt eftir var Gylfi fatlaður og komst ekki ferða sinna nema í hjólastól. Ekki sáust samt neinir harmar í fari Gylfa af þessum sökum. Þvert á móti var hann einstaklega skemmtilegur maður með létta lund og fljótur til svars ef á þurfti að halda. Gylfi er nú látinn. Við gætum öll lært af viðbrögðum hans við atburðum líðandi stundar og hvernig hann létti sjálfum sér og öðrum lífshlaupið með léttri lund sinni og snörpum viðbrögðum við því sem fyrir hann bar.

  Það gerðist til dæmis einu sinni að sumarlagi að Gylfi leitaði hressingar á

heilsuhæli sem rekið var á Reykjalundi. Þegar hann kom þangað var honum sagt

að hann væri velkominn, en sjúkraþjálfarar gætu ekki sinnt honum að þessu

sinni. Þeir væru flestir í fríi og þess vegna væri enginn tiltækur til að sinna

honum. Hann gæti þess í stað lagst inn í nokkra daga og fengið heita bakstra

sem talið var að myndu hressa hann við. Þáði hann það. Var honum vísað inn á

herbergi þar sem hann skyldi hafast við meðan á meðferð hans stæði.

  Þegar Gylfi hafði komið sér fyrir, sat hann í hjólastólnum fyrir framan

vistherbergið og beið þess að vera sinnt. Eftir dálitla stund kom starfskona

stormandi inn ganginn þar sem Gylfi sat. Stöðvaði hún för sína hjá honum og

ávarpaði hann: „Vildir þú heita bakstra?“ Hann svaraði að bragði: „Nei ég vildi

nú bara fá að heita Gylfi áfram“.

__________

 

Eitt sinn vorum við félagarnir þátttakendur í háalvarlegu bridsmóti. Þegar

kaffihlé var gert á spilamennskunni sátum við saman við kaffiborð og ræddum

slæm örlög okkar í síðasta spili fyrir hlé. Vorum við ekki alveg sammála

um framvindu mála í spilinu. Gylfa leiddist ruglð í makkernum og ávarpaði

hann þessum orðum: „Jón minn! Þú þarft ekki að óttaast að þú kafnir þó að þú

lokaðir á þér munninum augnablik.“ Var málið þar með útrætt.

 

Það léttir manni lífshlaupið að hafa fengi að njóta vináttu og samvista við

þennan gáfumann sem Gylfi var. Hann andaðist 17. júlí 2010.

 

Blessuð sé minning hans.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page