top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Illa farið með skattpeninga

Komið hefur fram í fjölmiðlum að ný ríkisstjórn vilji draga úr ríkisútgjöldum. Ekki veitir nú af. Eins og málum er nú háttað væri að skaðlausu unnt að fækka dómurum Hæstaréttar í fimm eða jafnvel þrjá, en þeir eru nú sjö.


Áður en Landsréttur var stofnaður sátu níu dómarar í Hæstarétti. Ljóst var að starfsálag á réttinum myndi minnka að mun enda var breytingin m.a. til þess gerð.


Tölur í ársskýrslum réttarins sýna að þetta varð reyndin svo um munaði. Umfang starfa einstakra dómara við réttinn varð einungis 20-25% af því sem verið hafði fyrir breytinguna.


Fyrirsvarsmenn Hæstaréttar munu hafa barist fyrir því að fækka dómurunum aðeins í sjö þegar Landsréttur tók til starfa. Var það látið eftir þeim á kostnað skattgreiðenda. Nú hafa þeir lítið að gera og eru margir þeirra að sinna öðrum störfum auk dómsstarfanna. Einhverjir þeirra eru t.d. í föstum kennarastöðum við lagadeildir háskólanna.


Minnt skal á að dómarar réttarins voru fyrst eftir stofnun hans í byrjun 20. aldar fimm, dómsstjóri og fjórir meðdómrndur. Þeim var jafnvel fækkað í þrjá á stuttu tímabili. Eftir að málafjöldinn óx að mun á síðari hluta síðustu aldar var þeim svo fjölgað í sjö og síðar í níu. Og nú eru þeir sjö. Kostnaður ríkisins við hvern dómara nemur tugum milljóna á ári eða jafnvel hærri fjárhæðum.


Það er dæmigert fyrir Ísland að haldið skuli uppi sukki með skattpeninga ríkisins til að gera valdamiklum embættismönnum til hæfis.


Ég vísa um þetta til greinar sem ég birti á heimasíðu JSG lögmanna 18. apríl í fyrra 2024. Væri nú ekki ráð fyrir nýja ríkisstjórn að hrinda breytingu á þessu í framkvæmd og spara með því veruleg útgjöld?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page