
Nær daglega verðum við vitni að háttsemi manna sem felst í að gera öðrum rangt til. Þetta getur falist í ýmsu eins og að taka þátt í fordæmingum yfir mönnum sem hafa verið sakaðir um brot gegn öðrum sem þeir neita og engar sannanir eru um. Stundum er háttsemi sem maður er sakaður um alvarlegri og getur falist í glæpum gagnvart öðrum.
Við höfum í gildi réttarkerfi sem á að fjalla um refsiverð afbrot manna. Þar þarf að uppfylla lögbundin skilyrði til að heimilt sé að refsa sakborningum. En fordómar okkar eru ekki bundnir við svo alvarleg brot að réttarkerfið láti sig varða. Brot á öðrum kann að felast í því að fallast á og bera út orðróm sem við heyrum um ámælisverða háttsemi þeirra, án þess að nokkur „sök“ hafi sannast. Við ættum ekki að láta það eftir okkur að taka undir slíkan orðróm og bera hann út.
Sagt hefur verið að mannskepnan sé grimmasta skepna jarðarinnar. Þegar litið er á mannkynssöguna verður að telja þessa staðhæfingu hafa nokkuð til síns máls. Að vísu eru til rándýr sem drepa bráðina án samviskubits, en þau drepa yfirleitt bara einn í einu og þá helst ekki þá sem eru sömu tegundar. Mannskepnan fremur hins vegar fjöldamorð og þá m.a. á meðbræðrum sínum. Nasistar drápu þannig 6 milljónir gyðinga á árum síðari heimstyrjaldarinnar og nú eru stunduð dráp á saklausu fólki í miðri Evrópu svo dæmi séu tekin.
Ekki eru allar misgerðir okkar svona stórfelldar en við erum samt mörg tilbúin til að veitast að öðrum án fullnægjandi tilefnis og þannig valda þeim sársauka og beinum skaða.
Ég spyr hvað sé til ráða? Svar mitt er að okkur beri öllum siðferðileg skylda til að eyða tíma og hugarorku í að mynda okkur sjálfstæðar skoðanir um þau gildi sem við viljum virða í lífi og starfi. Þetta eigum við að gera án þess að tengja það við nokkurn mann eða nokkra hagsmuni, því hugsanir um slíkt eru líklegar til þess að rugla okkur í ríminu. Ég held að tilfinning flestra okkar fyrir mannúð, réttlæti, sannleika og mannréttindum yrði mælikvarðinn sem við flest myndum vilja setja í öndvegi. En það er ekki nóg að gera þetta eingöngu upp í huganum fyrir sjálfan sig. Við verðum að taka sjálf upp lifnaðarhætti sem markast af þessum gildum og vera fús til að berjast fyrir þeim hvenær sem er á vettvangi mannanna.
Og trúið mér: Virðing okkar fyrir okkur sjálfum mun vaxa við þetta og þar með dagleg líðan batna og það eins þó að við höfum þurft að fórna einhverjum fjárhagsmunum fyrir að standa okkur í að vera sjálfstæð og heiðarleg gagnvart öðrum.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður