Fyrir nokkrum árum sendi ég starfandi dómurum gátlista sem þeir gætu haft við hendina við meðferð sakamála. Flestir þeirra tóku þessu framtaki vel.
Lagaheimild til refsingar þarf að vera í settum lögum. Efni hennar þarf að vera skýrt og ber að túlka vafa sakborningi í hag.
Ekki má dæma sakborning fyrir aðra háttsemi en þá sem í ákæru greinir.
Heimfæra þarf háttsemi til lagaákvæðis af nákvæmni. Dómendur hafa ekki heimild til að breyta efnisþáttum í lagaákvæðum sakborningum í óhag.
Sanna þarf sök. Sönnunarbyrði hvílir á handhafa ákæruvalds.
Við meðferð máls á áfryjunarstigi þarf að gæta þess að dæma sama mál og dæmt var á neðra dómstigi. Til endurskoðunar eru úrlausnir áfrýjaðs dóms; ekki annað.
Sakborningar eiga rétt á að fá óheftan aðgang að gögnum sem aflað hefur verið við rannsókn og meðferð máls.
Sakborningar eiga að fá sanngjarnt tækifæri til að færa fram varnir sínar.
Dómarar, sem dæma, verða að hafa hlutlausa stöðu gagnvart sakborningum.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður