Við hittumst fyrst haustið 1972. Hún var þá 19 ára og ég 24. Við urðum ástfangin og fljótlega lá fyrir að samband okkar yrði varanlegt. Við giftum okkur 27. júlí 1974. Fyrr á því ári hafði elsti sonur okkar Ívar Páll fæðst og var hann skírður við athöfnina í kirkjunni. Síðan höfum við eignast fjögur börn, Gunnlaug 1976, Konráð 1984, Huldu Björgu 1986 og Hlyn 1988. Barnabörnin eru orðin 15 talsins.
Kristín hefur borið hitann og þungann af uppeldi barna okkar, þó að ég hafi auðvitað líka sinnt því verkefni með henni. En hún er eins og hún hafi verið sköpuð til að annast um alla þessa afkomendur okkar og reyndar mig líka. Þau sjá ekki sólina fyrir henni og ég ekki heldur. Hún hefur líka gætt að heilsu minni alla tíð og fékk mig m.a. til að hætta að drekka í maí 1979 og að reykja haustið 1980. Svo hefur hún staðið með mér og stutt mig í umfangsmiklum skrifum mínum, hvort sem er í bókum eða blaðagreinum, lesið allt yfir, komið með ábendingar um efnið og lagfært stafsetningu og rithátt.
Í dag eru liðin 50 ár frá því að við giftumst og telst það orðið gullbrúðkaup. Það er mikil lífsgæfa að eignast förunaut eins og hana um lífsins daga. Ég hef notið þeirrar gæfu öll þessi ár og er jafn ástfanginn af henni eins og í árdaga, þó að samband okkar hafi auðvitað breyst með árunum, eins og gerist sjálfsagt hjá yfirleitt öllum hjónum. Forsjónin hefur verið okkur afar hliðhöll öll þessi ár.
Ég færi lífsástinni minni þakklæti fyrir lífshlaup okkar saman og vonandi eigum við ennþá einhver ár eftir í félagi hvort við annað og okkar myndarlega ættboga.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður