Haustið 2021 gerði sá mæti þjóðfélagsrýnir, Björn Jón Bragason, 6 hlaðvarpsþætti með viðtölum við mig um ástand mála í Hæstarétti og aðgerðir sem gera þyrfti til að endurbæta starfsemi réttarins. Báru þættirnir nafnið „Það skiptir máli“ og hafa að geyma ítarlega lýsingu á því sem aflaga hefur farið í starfsemi réttarins á undanförnum árum og til hvaða ráðstafana ætti að grípa til endurbóta. Hægt er að ná í þessa þætti á hlaðvarpi Morgunblaðsins.
Svona hlaðvarpsþættir fela í sér nýjung á sviði umfjöllunar um þjóðfélagsmál og gefa tækifæri til fjalla af mun meiri nákvæmni um þau en unnt hafði verið áður. Áhugamenn um ástand dómsmálanna sem ekki hafa hlustað á þætti okkar Björns Jóns ættu nú að bregða undir sig þeim fæti sem þeim þykir bestur og hlusta á þá.
Nú hefur annar vandaður þáttagerðarmaður, Snorri Másson, gert hlaðvarpsþátt með viðtali við Björn Jón sem ástæða er til að hvetja menn til að hlusta á. Þar er fjallað um marga þætti þjóðfélagsmálanna af þekkingu og viti sem báðir þessir menn eru þekktir fyrir og þora að hafa skoðanir á. Það er því rík ástæða til að hvetja menn til að hlusta á þáttinn og hlusta á fróðleik sem er hafinn yfir dægurþrasið sem daglega er hellt yfir okkur. Hafið þökk fyrir drengir.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður