Öllum mönnum er hollt að leggja sig eftir hugmyndafræði í stjórnmálunum vegna þess að hugmyndir manna um grundvöll samlífs með öðru fólki eru til þess fallnar að gefa lífshlaupi þeirra aukið gildi og færa þeim lífsgleði og hamingju. Mínar hugsanir féllu fljótlega í þann farveg, að ég taldi frelsi einstaklinga með ríka ábyrgð á eigin lífi eiga að vera sú undirstaða sem líf mitt skyldi byggjast á.
Þegar ég horfi til baka skynja ég að strax innan við tvítugt hafði ég eignast þá sannfæringu um meginatriði í lífinu sem ég hef haldið síðan. Á þeim árum var ég fenginn til að flytja á fundum ungliða í stjórnmálum erindi um hugmyndafræði sem verðugt væri að lifa eftir. Á þessum árum las ég mikið í ritum um stjórnmálaheimspeki. Þetta átti eftir að móta afstöðu mína og hugsjónir.
Þegar ég les núna erindi sem ég flutti og voru birt opinberlega má vera að mér finnist þau vera ungæðisleg á köflum. En hugsunin sem þar birtist var heiðarleg og hrein. Meginboðskapurinn er sá að þær grunnhugmyndir sem standa að baki lýðræðislegu stjórnkerfi eigi líka við í daglegu lífi manna. Þeir eigi þannig ekki aðeins að fá aðild að landsstjórninni með kosningarétti sínum heldur einnig að fá að ráða sínum eigin málefnum í ríkum mæli og virða rétt annarra til hins sama.
Í endurminningunni finnst mér að hugsanir um þetta hafi skipt meginmáli fyrir myndun þeirra skoðana í stjórnmálum og raunar um æskilega hætti í daglegu lífi manna sem ég síðan hef haft. Niðurstaðan er að líklega séu þeir fáir sem hlýddu á erindi mín, sem hafi munað mikið af því sem sagt var, þannig að það entist þeim. Það gerði líklega aðeins sá sem talaði! Ég held að málum sé oft svona farið. Til dæmis græddi ég mikið á því að kenna við háskólana og fólst það ekki síst í þeirri vinnu sem ég lagði í undirbúninginn. Vonandi hefur eitthvað líka setið eftir hjá nemendunum. Kennsla hefur að mínu mati fyrst og fremst þann tilgang að vekja áhuga nemenda á viðfangsefninu þannig að þeir verði tilbúnir til að leggja sig sjálfir eftir námsefninu.
Það er að mínum dómi afar mikils virði fyrir einstaklinga að tileinka sér það sem við stundum köllum lífsskoðun. Þá á ég við afstöðu til lífsins sem ræðst af grunnhugmyndum um hvað sé skynsamlegt og hvað leiði til mests velfarnaðar í lífi einstaklinga en þó kannski umfram allt hvað teljist vera rétt og hvað rangt út frá málefnalegum sjónarmiðum eingöngu og þeim siðferðislegu og lagalegu viðhorfum sem viðkomandi hefur. Þegar tekin er afstaða til mála verða menn að skilja að hagsmunir, sem þeir sjálfir kunna að hafa eða hafa samúð með, mega ekki valda frávikum frá því sem rétt er samkvæmt þeim meginsjónarmiðum sem þeir hafa tileinkað sér og sett í öndvegi í lífi sínu.
Í skáldsögunni Undirstaðan, eftir þann merka höfund Ayn Rand, sagði frá tveimur tíu ára börnum tala saman um hvað þau hygðust gera í lífinu. Annað þeirra, drengur, svaraði spurningu um hvað hann ætlaði að gera með orðunum. „Það sem er rétt.“ Ekki flókið! (Sjá Ayn Rand „Undirstaðan“ í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, útg. Almenna bókafélagið 2012, bls. 10.)
Þó að við tileinkum okkur svona viðhorf þurfum við samt að skilja að engin trygging er fyrir því að við höfum alltaf rétt fyrir okkur. Og við verðum líka jafnan að vera tilbúin til að skipta um skoðun á þeim málefnum sem við tökum afstöðu til ef nýjar upplýsingar eða röksemdir birtast okkur. Þó að engin trygging sé fyrir því að við höfum alltaf rétt fyrir okkur gerir það samt ekkert til svo lengi sem við reynum af einlægum huga að taka þá bestu afstöðu sem völ er á. Meira verður ekki krafist af okkur. Og það sem mestu máli skiptir, við getum sjálf ekki krafist meira af okkur sjálfum.
Hafi maður breytt rétt, eftir bestu samvisku, getur enginn gert honum neitt. Hann getur staðið aleinn gagnvart málæði, hávaða og fordæmingum án þess að slíkt hreyfi við honum, aðeins ef hann hefur hlýtt kalli samvisku sinnar og gert það sem fólst í svari drengsins í sögu Ayn Rand, „það sem er rétt“, og þá eins og maðurinn hefur metið það sjálfur eftir að hafa reynt að taka tillit til alls sem máli skiptir. (Sjá Ayn Rand „Undirstaðan“ í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, útg. Almenna bókafélagið 2012, bls. 10.)
Ég hef líka alltaf haldið upp á orð sem höfð eru eftir Abraham Lincoln lögfræðingi í „Notes on Lawyers“ frá 1850, en Abraham þessi gegndi eins og menn vita embætti forseta Bandaríkjanna nokkrum árum síðar. Orð hans hljóða svo í þýðingu minni: „Reynið alltaf að vera heiðarleg; og ef þið getið ekki að eigin dómi verið heiðarleg í starfi ykkar sem lögfræðingar, verið þá heiðarleg við að gera eitthvað annað.“
Grunnviðhorf
Setjum okkur í svolítið hátíðlegar stellingar og veltum fyrir okkur grundvellinum fyrir því samfélagi sem við öll erum í við annað fólk. Erum við ekki sjálf grunneiningin? Við höfum auðvitað aldrei verið beðin um að semja okkur inn í samfélag við aðra. Flest teljum við samt að okkur beri siðferðileg skylda til þátttöku í slíku samfélagi. Ástæðan er nábýlið við aðra og óhjákvæmileg sameiginleg viðfangsefni okkar og þeirra. Þess vegna beygjum við okkur flest undir að teljast þátttakendur í sameiginlegu skipulagi með öðru fólki.
Þetta skipulag hefur þróast með ýmsum hætti, til dæmis hafa myndast einingar sem samanstanda af þeim einstaklingum sem byggja ákveðin og skilgreind landsvæði. Þeir mynda saman það sem við köllum ríki og setja sér þar reglur um sambúð sína innan endimarka þess. Við gerum fæst miklar athugasemdir við þetta.
Meginhugmyndin hlýtur samt að vera sú að einstaklingurinn í slíku samfélagi sé grunneiningin. Hann verður ekki til fyrir samfélagið, heldur er samfélagið til fyrir hann og til að þjóna einstaklingsbundnum þörfum hans. Þessi hugsun mótar þýðingarmikil grunnviðhorf í stjórnskipun okkar og lögum. Til dæmis er það almenn meginregla í okkar réttarkerfi að frelsi manna til orða og athafna eigi helst ekki að takmarkast af öðru en réttindum annarra. Við teljum líka þá meginreglu gilda að setta lagaheimild þurfi til að skerða frelsi einstaklinga og jafnvel að slík heimild dugi ekki til ef skert eru réttindi sem njóta ríkari verndar samkvæmt sérstökum ákvæðum sem við höfum sett í stjórnlög okkar þar að lútandi. Ég tel að miklu máli skipti fyrir þá sem starfa að úrlausn mála í réttarkerfinu að átta sig vel á þessum hugmyndagrundvelli stjórnskipunarinnar.
Það er líka sérstaklega ástæða til að nefna annan þátt sem að mínum dómi er óaðskiljanlegur hluti af þeirri lífsskoðun sem hér er lýst, en það er virðing fyrir öðru fólki og skilyrðislaus viðurkenning á rétti þess til að haga sínu eigin lífi á þann hátt sem það sjálft kýs svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Mannfólkið er fjölbreytilegt og einstakir menn hafa mismunandi kenndir, hvatir og langanir í lífinu. Allir eiga þar að mínum dómi sama rétt. Ekkert okkar hefur heimild til að sitja yfir hlut annarra með því að bjóða og banna, eins og svo margir vilja sífellt gera. Sumir vilja flokka mannfólkið eftir þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, gáfum eða hverju því öðru sem greinir einn mann frá öðrum og láta menn njóta misjafns réttar eftir því hverjum þessara „flokka“ þeir tilheyra. Til þess hafa menn yfirleitt enga heimild af þeirri einföldu ástæðu að einn á ekki að ráða neinu um einkahagi annars. Svo einfalt er það.
Svo er annar eiginleiki sem oft skiptir sköpum í samskiptum milli manna af því að hann er oft nauðsynlegur til að geta haldið vináttu og góðum tengslum á lífi. Þetta er hæfileikinn til að geta beðist afsökunar. Enginn maður kemst hjá því að segja einhvern tíma eða gera eitthvað sem meiðir eða særir annan, jafnvel góðan vin. Hafi maður gert þetta og síðan komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið farið fram af fullri sanngirni gagnvart þeim sem orðum var beint að, tilheyrir það að mínum dómi siðferðislegri skyldu að biðja viðkomandi afsökunar. Stundum hef ég verið of fljótur til að beina skeytum að öðrum án þess að sýna nauðsynlega sanngirni. Ég tel mig í slíkum tilvikum oftast hafa reynt að bæta ráð mitt, ræða málið við þann sem í hlut á og biðja hann afsökunar á frumhlaupinu. Það er regla frekar en undantekning að hrein samskipti af þessu tagi treysti vináttu og gott samband milli manna fremur en að spilla því. Ég hef líka orðið vitni að því að skorturinn á þessum hæfileika hefur leitt af sér sambandsleysi og jafnvel vinslit, sem auðveldlega mátti komast hjá.
Að mínu áliti skiptir það sköpum fyrir velferð og hamingju manna að njóta frelsis til að stjórna eigin lífi og taka ákvarðanir um hagi sjálfs sín. Þessu verður að fylgja ábyrgð þess manns sjálfs sem í hlut á. Það er lykilatriði. (Sjá um þetta ritið Ábyrgðarkver eftir Gunnlaug Jónsson, sem út kom í Reykjavík 2012. Í ritinu eru færð fram sterk rök fyrir sjónarmiðum um að hver maður skuli njóta frelsis til að taka ákvarðanir í eigin lífi og bera sjálfur ábyrgð á þeim. Ég er kunnugur höfundinum persónulega og veit að hann mælir af heilindum og mannviti.)
Í samfélagi mannanna er auðvelt að greina alls kyns vandamál, sem einstaklingar og hópar þeirra eiga við að stríða. Úrræði margra felast í að vilja taka á vandanum með opinberum afskiptum og forsjá sem fela í sér skerðingu á athafnafrelsi borgara almennt og krefst skattheimtu og þær takmarkanir á sjálfsforræði borgara sem henni fylgir. Settar eru boð- og bannreglur um alls kyns mannlega breytni og refsing lögð við ef menn fylgja ekki hinni opinberu forskrift. Stundum er eftirlitsstofnunum hins opinbera komið á fót til að gæta að því að menn fari eftir fyrirmælum og tryggja að þeir verði lögsóttir sem ekki hlýða. Þá eru tíðum settar lagareglur sem fela í sér beinan eða óbeinan tilflutning fjármuna á milli borgaranna. Þessi forsjá er að mínum dómi afar óæskileg og gerir ekki annað en að ræna menn ábyrgðinni á sjálfum sér sem er svo bráðnauðsynleg fyrir lífshlaup okkar og hamingju.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður