top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Forsjárhyggja


Það er alveg merkilegt að sjá hvernig forsjárhyggjan getur heltekið suma menn sem gefa kost á sér í pólitík og ná kjöri sem alþingismenn. Alþingismenn eru, svo sem von er, haldnir þörf til að láta gott af sér leiða. Margir þeirra halda að því markmiði verði best náð með löggjöf sem hefur hefur vit fyrir fólkinu, þ.e.a.s. verndar það fyrir sjálfu sér. Þeim ætlar seint að lærast þau einföldu sannindi að eina verndin, sem eitthvað dugar, er sú vernd sem í því felst að hver og einn maður taki ábyrgð á sínu eigin lífi.

Taka má dæmi af lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Þar er tilgangi laganna lýst í 1. gr. þeirra, þar sem segir:

„Markmið þessara laga er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og að stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar.“

Síðan er í lögunum að finna margs konar ákvæði sem ganga út á að takmarka heimildir manna til að taka peningalán sem tryggð eru með ábyrgð þeirra sjálfra eða annarra. Hvers vegna er löggjafinn að skipta sér af þessu? Ef lánveitandi og lántaki semja um lánveitingu með skilmálum sem báðir samþykkja, hvað hefur þá löggjafinn að gera með að takmarka heimildir þeirra til að semja sín á milli um þetta? Báðir gera þetta á sína eigin ábyrgð.

Þetta eru að mínum dómi kostuleg afskipti af einkamálefnum sem koma löggjafanum ekkert við. Meðan sjálfráða menn hafa heimildir til að semja við aðra um málefni sín og báðir aðilar eru sammála um skilmála samnings, kemur ríkisvaldinu samningurinn ekki við. Svo einfalt er það.

Mörg fleiri dæmi eru til um þessi ósköp. Í forsjárhyggju laga er einatt takmarkað frelsi borgaranna til að ráðstafa sínum eigin málefnum á sína eigin ábyrgð. Í ríki sem vill virða rétt manna til persónulegs frelsis og þ.m.t. ábyrgðar á sjálfum sér, geta lagaákvæði af þessu tagi ekki talist réttlætanleg.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page