top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Forkastanleg framkoma

Það er alveg forkastanleg framkoma Knattspyrnusambands Íslands við þá knattspyrnumenn sem hafa verið hafðir fyrir sökum um kynferðisbrot en þeir andmæla og ekki hafa verið sönnuð. Sambandið setur þá sem svona stendur á um í bann við að taka þátt í kappleikjum á vegum þess.

 

Hvaðan kemur þessu sambandi heimild til að sakfella þá sem svona stendur á um? Þessi framkvæmd er auðvitað mjög íþyngjandi fyrir þá knattspyrnumenn sem hlut eiga að máli bæði gagnvart almenningi og stundum jafnvel í starfi sem atvinnumenn í knattspyrnu. Er ekki unnt að bíða með að beita þá viðurlögum þar til rétt yfirvöld í landinu hafa leyst úr máli þeirra á þann veg að sökin teljist sönnuð? Kannski búið sé að fá andstæðingum íslenska landsliðsins vopn í hendur til að hindra þessa pilta í þátttöku í kappleikjum gegn þeim?

 

Ég segi bara við fyrirsvarsmenn KSÍ: Hættið þessari ósanngjörnu valdbeitingu. Þið farið ekki með guðlegt vald sem heimilar ykkur svona framferði. Munið að reglan um sakleysi þar til sekt er sönnuð gildir ekki bara við meðferð mála fyrir dómi. Þetta er líka regla af siðferðilegum toga sem gildir í samskiptum borgaranna yfirleitt.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page