Ég hef jafnan í alþingiskosningum kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan er sú að mér hefur fundist hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir, auk þess sem flokkurinn hefur haft uppi stefnumið í ýmsum málum, sem mér hafa þótt burðugri en annarra.
Nú eru mér hins vegar að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk. Hann hefur nefnilega hreinlega fórnað mörgum stefnumálum í þágu samstarfs í ríkisstjórn með verstu vinstri skæruliðum sem finnast í landinu. Það er eins og fyrirsvarsmenn flokksins hafi verið tilbúnir til að fórna stefnumálum sínum fyrir setu í ríkisstjórn. Þá má spyrja: Til hvers eru menn í stjórnmálum ef þeir eru ekki að koma fram þeim stefnumálum sem þeir segjast hafa?
Kosningar eru framundan. Í ljós kemur í fylgiskönnunum að flokkurinn, sem ég og fjölmargir aðrir hafa stutt, muni gjalda afhroð. Að mínum dómi kemur ekki annað til greina en skipta gersamlega um kúrs og byggja kosningabaráttuna á þeim stefnumálum, sem við mörg héldum að þessi flokkur ætti að standa fyrir.
Stefnumálin
Þessi eru helst:
Orkuvirkjanir. Þjóðin á marga kosti á að virkja fallvötn og jarðhita til raforkuframleiðslu. Framkvæmdir í þessum efnum hafa legið niðri árum saman vegna mótþróa samstarfsmanna í ríkisstjórn.
Málefni sem varða heimildir erlendra manna til að koma til landsins og festa hér búsetu. Að vísu hafa verið gerðar breytingar á lögum í því skyni að ná taki á þessum málaflokki. En þegar á reynir í einstökum málum virðist flokkurinn styðja frávik frá lögunum án heimilda til að þóknast þeim sem hæst láta hverju sinni.
Heilbrigðismál. Hefja verður öfluga einkavæðingu heilbrigðisstofnana.
Fullveldi landsins. Nú sjást merki um að fyrirsvarsmenn flokksins vilji standa fyrir löggjöf sem skerðir fullveldi þjóðarinnar með alvarlegum hætti.
Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda sýndi nýverið opinberlega fram á að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa á undanförnum árum nýtt stórfé úr ríkissjóði til að stofna til margháttaðrar starfsemi á vegum ríkisins, sem alls ekki ættu að vera á verkefnalista þess. Þessari þróun verður að snúa við með því m.a. að leggja slíkar stofnanir niður í stórum stíl.
Gera verður raunverulegt átak í lækkun skatta, t.d. með því að leggja niður sérskatta sem úir og grúir af í landinu. Þessu gæti tilheyrt að láta einkaaðila annast starfsemi á ýmsum sviðum og heimila þeim að fjármagna starfsemina með gjaldtöku af þeim sem nýta hana.
Gera verður raunverulegt átak í að styrkja séreignarétt borgara á Íslandi á íbúðarhúsnæði.
Fyrir liggur að gera þarf átak í samgöngumálum. Það ber að fjármagna svo sem unnt er með því að láta þá sem nýta mannvirki á því sviði bera kostnaðinn í miklu meiri mæli en nú er.
Ríkinu ber að hætta rekstri fjölmiðla, m.a. með því að selja ríkisútvarpið og hætta að greiða ríkisstyrki til annarra fjölmiðla.
Hætta ber fjáraustri í loftlagsmál, sem engu skilar.
Huga þarf að endurbótum í menntakerfinu, m.a. að endurvekja samræmd próf í grunnskólum.
Binda þarf endi á aðgang boðbera svokallaðra „hinsegin“ fræða að skólum.
Fleira mætti telja en hér skal látið staðar numið að sinni.
Endurnýjum forystuna
Það hlýtur svo að teljast nauðsynlegur þáttur í endurreisn flokksins að endurnýja í stórum stíl forystuna. Það er auðvitað augljóst að kjósendur geta ekki treyst núverandi forystumönnum til að hrinda í framkvæmd ofangreindum verkefnum.
Framangreind stefnumið ber að setja fram með öflugum hætti í kosningabaráttunni sem framundan er. Gera má ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn muni þá allt að einu gjalda fyrir brot á stefnumálum sínum undanfarin ár. Þetta myndi hins vegar gefa fyrirheit um stuðning kjósenda þegar fram í sækir.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður