Deila við prófessor
- Jón Steinar Gunnlaugsson
- Apr 6
- 2 min read
Updated: Apr 10

Sú var tíðin að ég lenti í hálfgerðum útistöðum við gamlan læriföður minn í lagadeildinni, Sigurð Líndal, sem fjallaði m.a. í kennslu sinni um aðferðafræði dómstóla. Taldi hann að þeir færu með vald til að setja nýjar lagareglur og tækjust jafnvel á við Alþingi um lagasetninguna. Í erindi sem hann flutti á árinu sagði hann að dómstólar mættu aldrei verða ambátt löggjafans, eins og hann komst að orði. Hefði dómsvaldið sjálfstæðar valdheimildir nokkurn veginn til jafns við löggjafann til að móta lagareglur sjálfstætt.
Þetta taldi ég að ekki fengi staðist. Í stjórnarskránni væri kveðið á um að dómstólar skyldu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Hins vegar væri þeim ekki veitt heimild til að setja nýjar lagareglur eins og Sigurður taldi. Hefðu þeir þurft til þess lýðræðislegt umboð á sama hátt og handhafi löggjafarvaldsins en slíkt umboð hefðu þeir ekki.
Þessum fyrrverandi kennara mínum varð undarlega heitt í hamsi í umræðunum við mig um þetta. Sagði hann mig tilheyra illræmdri stétt málflutningsmanna, sem væru þrætugjarnir, fégráðugir og mútuþægir og væri helsta iðja þeirra að egna til illinda og ófriðar í þjóðfélaginu.
Það munaði ekki um það. Þegar ég hafði samband við Sigurð til að fá að vita hvort hann hefði átt við mig þegar hann viðhafði þessi svæsnu ummæli. Sagði hann svo vera. Ekki hefðu allir haft manndóm til að viðurkenna þetta.
Ég óskaði þá eftir því að Sigurður mætti mér á fundi til að ræða um ágreiningsefni okkar. Ekki vildi hann það. Varð ég því að eiga við hann í skrifuðu máli og varð úr þessu fjörleg ritdeila.
Ekki leiddi þessi deila okkar til formlegrar eða viðurkenndrar niðurstöðu, enda var auðvitað ekki kostur á því. Andmælandi minn átti hins vegar í miklum erfiðleikum með rökstuðning fyrir kenningu sinni og held ég að engum dyljist nú orðið að dómstólar hafi ekki heimildir til lagasetningar heldur beri þeim einfaldlega að dæma eftir gildandi lögum eins og kveðið er á um í stjórnarskránni. Sættumst við Sigurður fullum sáttum að deilu okkar genginni. Sagt er frá þessum orðaskiptum í 7. kafla bókar minnar “Í krafti sannfæringar”.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur