top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Dómari lætur af störfum

Inngangur

1. Yfirráð

2. Afreksverk

3. Böggull og skammrif

4. Hafskip

5. Gæsluvarðhald að ósekju

6. Endurupptaka Geirfinnsmáls

7. Fjárhagslegir hagsmunir

8. Skipun í dómaraembætti 2004

9. Einnota réttarfar í Baugsmálum

10. Eftirhrunsmál-umboðssvik

11. Óheilbrigt samfélag

12. Þöggun

13. Til hvers að fjalla um?

14. Vænlegasta leiðin


Inngangur


Sá þáttur ríkisvaldsins, sem næst okkur getur gengið og er viðkvæmastur í meðförum, er án nokkurs vafa dómsvaldið. Þar eru teknar ákvarðanir sem beinast að okkur beint og persónulega. Þær geta varðað fjárhag okkar og eignir, fjölskylduhagi, hvers kyns félagsleg réttindi og stöðu, svo ekki sé nú talað um frelsi okkar, sem handhafar dómsvalds geta skert um lengri eða skemmri tíma að uppfylltum ströngum skilyrðum samkvæmt lögum.

Meðferð dómsvaldsins er bundin í lögum og stjórnarskrá. Þannig segir í 61. gr. stjórnarskrárinnar að dómendur skuli í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Þá er í 70. gr. kveðið svo á, að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.


Dómendum er einnig í stjórnarskránni tryggt sérstakt öryggi í starfi. Þeim verður ekki vikið úr embætti nema með dómi og ekki fluttir í annað embætti gegn vilja þeirra. Þeir þurfa því ekki á sama hátt og aðrir handhafar ríkisvalds að sækja sér endurnýjað umboð til starfa með reglulegu millibili. Ástæðan fyrir þessu er sú að þeir eiga aðeins að starfa eftir lögum. Þeir eiga ekki að taka neinar ákvarðanir sem byggjast á persónulegum eða pólitískum viðhorfum þeirra. Þeir þurfa því ekki að bera gjörðir sínar undir almenning til að fá endurnýjað umboð til starfa.


Þessi réttarstaða dómara er til þess fallin að geta valdið ákveðnum vanda. Hann felst í því að erfitt er að bregðast við ef dómarar brjóta gegn starfsskyldum sínum og taka ákvarðanir sem byggjast á persónulegum viðhorfum þeirra, hvort sem þau eru af pólitískum toga eða vegna hagsmuna þeirra sjálfra eða annarra. Lengi hafa verið uppi mismunandi sjónarmið um heimildir dómstóla til að víkja frá lögum og jafnvel setja nýjar lagareglur. Ég hef sjálfur verið eindreginn talsmaður þess að slíkar heimildir séu ekki fyrir hendi og vék m.a. að því í bókinni „Um fordæmi og valdmörk dómstóla“, sem kom út á árinu 2003. Hér yrði allt of langt mál að gera grein fyrir mismunandi viðhorfum um þetta. Aðeins skal sagt að meira að segja þeir lögfræðingar sem lengst ganga í að ætla dómurum þvílíkt vald draga því ströng mörk. Þeir átta sig allir á því að dómarar, sem ekki njóta neins lýðræðislegs umboðs frá almenningi, geta aldrei farið með nema afar takmarkaðar heimildir til að setja nýjar lagareglur. Allir menn hljóta að eiga auðvelt með að skilja nauðsyn þess að dómendum sé ekki fengið slíkt vald.


1. Yfirráð


Hinn 1. október lét Markús Sigurbjörnsson af störfum í Hæstarétti. Hann er án nokkurs vafa sá dómari sem hefur haft langmest áhrif á starfsemi réttarins undanfarna áratugi, en hann hefur setið í réttinum um 25 ára skeið. Þrátt fyrir mikla tæknilega hæfni Markúsar í lögfræði hafa þau áhrif því miður ekki verið góð. Ég tel nauðsynlegt að fara yfir feril hans, eins og ég hef séð hann og upplifað, þótt ekki sé til annars en að opna augu manna betur en áður fyrir því hversu alvarlegt það er að æðsti dómstóll þjóðarinnar láti eitthvað annað en einlæga fylgni við lagareglur stjórna gjörðum sínum. Lesandinn verður að hafa í huga að ég hef auðvitað ekki vitneskju um annað í starfsferli mannsins en það sem að mér hefur snúið með einhverjum hætti eða alkunnugt hefur orðið.


Eftir að ég hætti sem dómari við réttinn haustið 2012 hef ég leitast við að fjalla um verk Markúsar og hinna dómaranna, einkum þau sem hafa ekki verið forsvaranleg að mínum dómi. Þetta hefur valdið því að Markús dómari og flestir lögfræðingarnir í kringum hann hafa brugðist ókvæða við. Kannski eru svona viðbrögð við gagnrýni dæmigerð fyrir Ísland. Í stað þess að fjalla um hana, til dæmis við lagadeildir háskólanna og veita þá málefnaleg andsvör ef til eru, er þagað um efni hennar og stofnað til hreins fjandskapar við gagnrýnandann. Er það e.t.v. vegna þess að góð andsvör hafa ekki fundist? Á hinn bóginn er í einkasamtölum veist að gagnrýnandanum persónulega, hann baktalaður og reynt að gera lítið úr honum. Þöggun er aðalúrræðið gegn honum (sjá um þetta t.d. greinina Þöggun á heimasíðu lögmannsstofu minnar á slóðinni jsg.is).


Í lögfræðingahópnum í okkar litla landi hefur myndast það ástand að flestir vilja falla í kramið hjá þeim sem ráða, ekki síst eftir að þeir náðu undir sig valdinu til að ákveða hverjir skyldu skipaðir í lausar dómarastöður. Það er ótrúlegt hvernig Markúsi Sigurbjörnssyni hefur gegnum árin tekist að fá til fylgilags við sig aðra lögfræðinga, m.a. dómara við Hæstarétt. Tel ég að viðleitni hans til að ná þessum yfirráðum hafi verið einkennandi fyrir allan starfsferil hans. Hér á eftir mun ég leitast við að rekja samskipti mín við Markús gegnum tíðina og önnur þekkt atriði frá starfsferli hans. Skal þá fyrst getið fyrstu kynna minna af manninum. Þau voru í lagadeild Háskóla Íslands fyrir margt löngu en þá var hann nemandi minn í fjármunarétti. Ég man svo sem ekki mikið eftir honum frá þeim tíma, því hann var frekar óduglegur við að sækja fyrirlestra. Hins vegar tók hann afburða góð próf. Vakti það athygli mína á manninum, því efnið var níðþungt.


2. Afreksverk


Við Markús áttum báðir samtímis sæti í réttarfarsnefnd á árunum fyrir 1989, þegar ég hætti í þeirri nefnd af ástæðum sem ég mun skýra síðar. Eftir að ég var hættur í nefndinni tók hann að sér verkefni í tengslum við starfið þar, sem laut að því að uppfæra alla réttarfarslöggjöf landsins. Þörfin fyrir þetta stafaði einkum af ákvörðun um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds í framhaldi af máli, sem rekið hafði verið við Mannréttindadómstól Evrópu og hefur verið kennt við Jón Kristinsson; sjá um þetta lög nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, en þessi aðskilnaður skyldi taka gildi 1. júní 1992. Um leið þurfti auðvitað að uppfæra reglur þessarar umfangsmiklu löggjafar í stórum stíl þar sem hún var að mörgu leyti komin til ára sinna og þurfti endurskoðunar við af þessu nýgefna tilefni.


Segja má að þá hafi Markús unnið fádæma afrek. Hann uppfærði alla þessa lagabálka á tiltölulega stuttum tíma og skrifaði athugasemdir og skýringar með frumvörpunum. Meðal lagabálkanna voru lög um meðferð einkamála, lög um meðferð opinberra mála, aðfararlög, skiptalög, lög um nauðungarsölu og fleiri bálkar. Maðurinn var ekki einhamur. Það er venjulegu fólki illa skiljanlegt hvernig hann fór að því að ljúka þessu gríðarlega verki á svo skömmun tíma sem raun ber vitni. Auðvitað er unnt að finna í afrakstrinum efnisatriði, þar sem betur hefði mátt gera. Það breytir því ekki að þarna sýndi Markús starfskrafta og tæknilega kunnáttu, sem mér er til efs að nokkur maður annar hefði getað leikið eftir honum. Hann naut vitaskuld aðstoðar annarra við verkið, eins og til dæmis núverandi eiginkonu sinnar sem er vel frambærilegur lögfræðingur. Það breytir ekki mati mínu á verki Markúsar sem sat við stjórnvölinn. Man ég eftir því að ég sendi í eina skiptið á ævinni tilnefningu til ríkisútvarpsins um mann ársins einhver áramótin þegar þetta stóð yfir. Kannski fékk hann bara þessa einu tilnefningu, því þjóðin vissi lítið um verkið sem þarna hafði verið unnið. Ég átti raunar sjálfur eftir að kynnast honum betur.


Ekki er vafi á að þetta afrek Markúsar jók veg hans og framgang í dómskerfinu. Leiddi það til þess að hann var skipaður dómari við Hæstarétt á árinu 1994 aðeins fertugur að aldri. Þar tók hann til við, ásamt fleiri mönnum, að vinna niður málahalann sem rétturinn bjó við og tókst á nokkrum árum að koma niður tímanum sem rekstur mála þar tók á þann veg að vel varð við unað, þrátt fyrir að málafjöldinn væri alltof mikill. Á tiltölulega skömmum tíma varð hann vafalaust langáhrifamesti dómarinn og síðar forseti réttarins, þegar tekið var til við að kjósa forseta til fimm ára í senn í stað undarlegrar reglu sem áður hafði gilt um þetta. Er augljóst að öðrum dómurum þótti ekki slæmt að fá að njóta afkasta þessarar „lögfræðivélar“ sem framleiddi langa texta eins ekkert væri, og það texta sem oftast virtust í fljótu bragði uppfylla tæknilegar kröfur.


3. Böggull og skammrif


En einn stór böggull fylgdi skammrifi. Allan sinn feril hefur Markús sýnt að hann er ekki fær um að meðhöndla einstök mál af þeirri réttsýni og fylgni við lagareglur sem dómari verður að tileinka sér. Og ekki nóg með það, því honum hefur, eins og nefnt var að framan, lánast að taka með sér til slæmra verka aðra dómara, sem honum hefur tekist að brjóta undir áhrifavald sitt. Hefur mér á stundum fundist þetta með ólíkindum því ég skildi ekki hvernig slíkt mátti henda menn sem ég þekkti ekki af öðru en málefnalegum heilindum og samkennd með öðru fólki. Mun ég hér á eftir nefna til sögunnar nokkra atburði sem ég hef orðið vitni að og jafnvel upplifað sjálfur, sem mér finnst styðja þetta svo um munar. Af fleiru er að taka en því sem ég nefni. Lesandinn ætti líka að hafa í huga að dæmin eru vísast miklu fleiri, þótt ég kunni ekki að segja frá þeim.


4. Hafskip


Muna menn eftir Hafskipsmálinu? Þetta var refsimál á hendur fyrirsvarsmönnum og endurskoðanda skipafélagsins Hafskips hf. og í héraði einnig gegn bankastjórum og bankaráðsmönnum viðskiptabanka félagsins. Of langt mál yrði að rekja atvik þessa dómsmáls í smáatriðum. Ég var skipaður verjandi endurskoðanda félagsins, Helga Magnússonar, bæði í héraði og Hæstarétti. Upphaf málsins varð rakið til skýrslu sem skiptaráðandinn í Reykjavík hafði sent til ríkissaksóknara 6. maí 1986.


Í bók Björns Jóns Bragasonar, „Hafskip í skotlínu“, sem út kom í Reykjavík 2008, er að finna frásögn af þessu umfangsmikla máli. Þá segir Helgi Magnússon frá þessum atburðum í 6. kafla bókar sinnar „Lífið í lit“, Rvík 2019. Þar er meðal annars að finna frásögn af því hvernig aðförin að sakborningunum var undirbúin og sviðsett fyrir sjónvarpsupptökur, þannig að höggið yrði sem þyngst fyrir þá.


Eins og nefnt var, átti málið upphaf sitt í skýrslu sem Markús Sigurbjörnsson samdi sem skiptaráðandi við Skiptarétt Reykjavíkur (samstarfsmaður hans var einnig skrifaður sem höfundur skýrslunnar, en vinnulagið bendir eindregið til að hún hafi að meginefni verið smíðuð af Markúsi). Skýrslan var skrifuð í einrúmi, þ.e. enginn þeirra Hafskipsmanna fékk að koma að nokkrum skýringum eða sjónarmiðum við samningu hennar. Móðir Markúsar var stór hluthafi í Eimskipi, sem hafði beinna hagsmuna að gæta af falli Hafskips. Auk þess hafði faðir Markúsar verið endurskoðandi Eimskips um tíma.


Þessi skýrsla virðist hafa verið samin af sérstökum hvötum Markúsar Sigurbjörnssonar, sem lutu sýnilega að því að koma höggi á þá menn sem fyrir urðu. Í 4. kafla bókar Björns Jóns, á bls. 119 til 151, er að finna lýsingu á þessu og sterk rök færð fyrir því að skýrsluhöfundarnir hafi gefið sér niðurstöður fyrirfram á þann veg að alvarleg brot hefðu verið framin í rekstri fyrirtækisins, meðal annars með því að rangfæra reikningsskil þess og meta andvirði skipastólsins of hátt. Leiddi skýrsla þessara manna til þess að tveimur vikum eftir að hún barst ríkissaksóknara voru fyrirsvarsmenn Hafskips og endurskoðandinn handteknir á heimilum sínum og leiddir fyrir sakadómara með upptökuvélar sjónvarps yfir sér á báðum stöðum. Virtist fréttamönnum, m.a. við sjónvarpið, hafa verið kynnt fyrir fram hvað til stóð. Mennirnir voru síðan úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli sakargifta sem gat að líta í skýrslunni. Þetta var ljótur leikur. Á honum bar Markús Sigurbjörnsson mesta ábyrgð og virðist hann hafa átt létt með að veitast að þessum mönnum, án þess að finna til mikils skilnings eða samkenndar með þeim.


Um þetta allt ræddum við skipaðir verjendur hinna ákærðu fyrir dómi. Niðurstaðan varð sú að sakargiftir skýrslunnar urðu að nær engu. Lokadómur Hæstaréttar fól að vísu í sér lítils háttar sakfellingar, sem að minnsta kosti mér þóttu gerðar til að koma til móts við offorsið sem dunið hafði á sakborningunum. Einn dómari, varadómarinn Jón G. Tómasson hrl., skilaði sératkvæði og vildi að langmestu leyti sýkna af þeim smávægilegu sakargiftum sem meirihlutinn féllst á. Dóm Hæstaréttar er að finna á bls. 936 í dómasafni réttarins 1991. Frásögn af rekstri þessa máls er að finna í bók minni „Í krafti sannfæringar“, bls. 78-81.


Svo varð til dálítill kyndugur eftirmáli þessa máls á árunum 2008-2009. Í október 2008 óskaði Ragnar Aðalsteinsson lögmaður eftir því fyrir hönd þeirra Hafskipsmanna að ríkissaksóknari léti fara fram rannsókn á tildrögum þess að farið var að þeim með þeim hætti sem að framan greinir vorið 1986. Var rannsóknarbeiðninni m.a. beint að borgarfógetunum sem sömdu skýrsluna miklu en þeir voru Markús Sigurbjörnsson og Ragnar H. Hall auk m.a. ríkislögmanns Gunnlaugs Claessen. Markús og Gunnlaugur voru báðir dómarar við Hæstarétt þegar beiðni þessi var send. Ríkissaksóknari á þessum tíma var Valtýr Sigurðsson.


Beiðnin var reist á ákvæði í lögum um meðferð opinberra mála (4. mgr. 66. gr.), sem komið hafði inn í lögin á árinu 1999 af sérstöku tilefni. Aflað var umsagnar hæstaréttardómaranna tveggja og hvöttu þeir eindregið til að orðið yrði við beiðninni. Ríkissaksóknari svaraði erindi Ragnars innan fárra daga með stuttu bréfi og féllst á kröfuna. Kvaðst hann myndu fela lögreglustjóra að annast rannsóknina. Ekkert gerðist samt í málinu næstu mánuði. Í lok árs 2008 tóku gildi ný lög um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með þeim lögum féll nefnd rannsóknarheimild úr lögum.


Það næsta sem gerðist var að ríkissaksóknarinn skrifaði lögmanni rannsóknarbeiðenda nýtt bréf í lok janúar 2009. Skemmst er frá því að segja að nú var fyrri afstöðu saksóknara snúið við og beiðninni synjað. Þetta nýja bréf var miklu ítarlegra en fyrra bréfið hafði verið. Hefði mátt ætla að höfundurinn væri ekki sá sami, þó að sami maður undirritaði bréfið. Öll var þessi afgreiðsla hin undarlegasta og var engu líkara en tekið hefði verið fram fyrir hendurnar á ríkissaksóknaranum eða að tekist hefði að sannfæra hann um að fyrri afgreiðslan þyrfti endurskoðunar við. Hugsanlegt er þó að ríkissaksóknarinn hafi aldrei ætlað sér að gera neitt í málinu, þrátt fyrir þessi sterku viðbrögð í upphafi, sem hafa þá verið sýndarviðbrögð.


Þess má geta að í lögunum fyrir breytingu var að finna heimild til að kæra synjun ríkissaksóknara á beiðni um rannsókn til dómsmálaráðherra. Í lok janúar 2009 stóð svo á að ríkisstjórnarskipti stóðu fyrir dyrum og var ný ríkisstjórn mynduð 1. febrúar 2009. Þegar ríkissaksóknari skrifaði síðara bréfið var eiginkona Markúsar Sigurbjörnssonar talin líkleg til að hljóta skipun í embætti dómsmálaráðherra í nýju ríkisstjórninni. Þegar til kom skipti þetta engu máli fyrir örlög rannsóknarbeiðni þeirra Hafskipsmanna. Eiginkonan hlaut ekki embættið, heldur Ragna Árnadóttir lögfræðingur.


5. Gæsluvarðhald að ósekju


Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að lög þurfi skilyrðislaust að kveða á um rétt þess sem hefur þurft að sæta gæsluvarðhaldi að ósekju, til bóta fyrir frelsisskerðinguna. Hugsun mín er þá sú, að stundum þurfi að svipta menn frelsi í þágu rannsóknar sakamála, það er að segja áður en upplýst er hvort þeir hafi brotið af sér. Almannahagsmunir krefjist þess að slík heimild sé til staðar. Með öðrum orðum standi henni að baki hagsmunir samfélagsins af því að upplýsa afbrot svo draga megi þann sem það drýgir til ábyrgðar. Sá sem frelsissviptingu sæti verði því að sætta sig við hana vegna slíkra hagsmuna. Komi hins vegar síðar í ljós að ekki verði fram komið dómi um frelsissviptingu á hendur manninum, hvort sem mál gegn honum er fellt niður eða hann sýknaður fyrir dómi af slíkri kröfu, hljóti samfélagið, en ekki hann, að eiga að bera kostnaðinn. Málið liggur þá þannig fyrir að einstaklingur hefur orðið að sæta sviptingu frelsis í þágu almannahagsmuna, án þess að unnt reynist síðan að uppfylla þau skilyrði sem þarf til að gera honum refsingu, sem felst í því að loka hann inni. Það er að mínum dómi bitið höfuðið af skömminni með því að viðkomandi maður þurfi fyrst að sæta slíkri þvingun án þess að hafa til þess unnið og síðan sé hann látinn bera kostnaðinn sjálfur af þessari „fórn“ í þágu hagsmuna almennings. Mér finnst þessi rökleiðsla einföld og sterk.


Í eldri lögum um meðferð opinberra mála nr. 74/1974 var í XVIII. kafla að finna ákvæði „um bætur handa sökuðum mönnum“. Þar var í 150. grein, 1. málsgrein, 1. tölulið kveðið svo á meðal annars, að aðeins skyldi taka kröfu manns um bætur til greina að „rannsókn hafi verið hætt eða ákæra ekki hafin vegna þess að sú háttsemi sem hann var borinn, hafi talist ósaknæm, eða sönnun hafi ekki fengist um hana eða hann hafi verið sýkn dæmdur með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu, enda megi fremur telja hann líklegan til að vera sýknan af háttsemi en sekan (leturbreyting mín).


Næstu lög um meðferð opinberra mála voru nr. 19/1991 og tóku gildi 1. júlí 1992. Markús hafði unnið að samningu þeirra. Ákvæðin um bætur var að finna í XXI. kafla laganna og var ofangreint ákvæði óbreytt (b. liður 176. greinar). Bragarbót var síðar gerð á ákvæðinu með 42. grein laga nr. 36/1999 af ástæðum sem vikið verður að hér á eftir. Varð nú meginreglan sú að þeir sem svo stóð á um sem þarna greindi skyldu eiga rétt á bótum en „þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.“ Svipað ákvæði er að finna í XXXIX. kafla núgildandi laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.


Af þessu yfirliti sést að ákvæðin um rétt manna til bóta vegna gæsluvarðhalds að ósekju voru lengi vel með öllu ófullnægjandi út frá þeim sjónarmiðum sem fyrr voru nefnd. Ég átti sæti í svonefndri réttarfarsnefnd árin 1981–1989. Á verksviði nefndarinnar var að huga að löggjöf um dómstólaskipan og réttarfarsreglur og gera tillögur um lagabreytingar um þessi efni. Markús Sigurbjörnsson tók sæti í nefndinni árið 1986. Undir lok setu minnar í nefndinni flutti ég tillögu um að endurskoðuð yrðu lagaákvæðin um bætur til handa sökuðum mönnum í þá átt sem mér þótti nauðsynlegt. Svo undarlegt sem það kann að virðast lagðist Markús og einhverjir fleiri nefndarmenn gegn tillögu um að gera slíkar breytingar.


Í tilefni af tillögu minni lagði Markús til að leitað yrði skriflegs álits ríkislögmanns, sem þá var persónulegur vinur hans, Gunnlaugur Claessen, síðar dómari við Hæstarétt. Hann skrifaði umsögn, sem ég á að vísu ekki lengur, en fól í sér eindregna andstöðu gegn þeim tillögum sem ég hafði gert og lutu að hagsbótum fyrir hina sökuðu menn. Með réttu eða röngu þóttist ég skynja að Gunnlaugur hefði átt samtöl og jafnvel eins konar samráð við þá sem með mér sátu í nefndinni og voru þar atkvæðamestir á þessum tíma, Markús Sigurbjörnsson og Hrafn Bragason, en þeir urðu báðir síðar hæstaréttardómarar. Þetta get ég samt ekki fullyrt. Allavega var afstaða þessara manna sú að ekki væri ástæða til að sinna þessu neitt frekar. Þetta ásamt öðru varð svo til þess að ég missti áhugann á að starfa áfram að verkefnum á sviði réttarfars á vettvangi þessarar nefndar. Var ég að eigin ósk leystur frá störfum þar á árinu 1989.


Áður en langt um leið fékk ég tækifæri til að láta þetta réttarsvið til mín taka og nú sem málflutningsmaður. Í aprílmánuði 1989 kom til rannsóknar hjá lögreglunni í Reykjavík mál sem snerti innflutning á kókaíni til Íslands frá Bandaríkjunum. Einn þeirra manna sem taldir voru „höfuðpaurar“ í brotinu, eins og lögreglan orðar þetta, var í sambúð með konu og áttu þau fjögurra ára gamalt barn saman. Sambýliskonan var handtekin sem grunuð og gert með úrskurðum sakadóms að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins, fyrst í tvær vikur og síðan í fjórar vikur í viðbót. Ég var skipaður verjandi konunnar. Frásögn af þessu máli er að finna í bók minni „Í krafti sannfæringar“, bls. 84-90.

Frá upphafi var ljóst að engin réttlæting var til staðar fyrir þessari aðför lögreglunnar að sambýliskonunni. Við blasti að þetta væri fyrst og fremst þvingunaraðgerð gegn sambýlismanni hennar sem ekki hafði verið mjög samvinnuþýður við lögregluna við upphafsrannsókn málsins.


Hálfu ári eftir þessa atburði var gefin út ákæra á hendur konunni. Augljóst var að ákæran var aðeins til málamynda og þá sjálfsagt til að reyna að réttlæta þær harkalegu aðgerðir sem konan hafði mátt sæta. Konan var svo sýknuð af sakargiftum þessarar ákæru. Ekki er unnt að segja að dómurinn hafi komið á óvart. Ákæruvaldið undi honum, það er að segja áfrýjaði honum ekki til Hæstaréttar.


Konan höfðaði nú mál á hendur íslenska ríkinu og krafðist miskabóta fyrir ólögmæta handtöku og gæsluvarðhald. Annaðist ég mál hennar sem fyrr. Ríkið var sýknað í héraði, þar sem stefnandi þótti ekki hafa „sýnt fram á að hún verði fremur talin vera sýkn en sek af ákæruatriðum í sakamálinu.“ Konan áfrýjaði til Hæstaréttar. Þar var héraðsdómurinn staðfestur með sams konar rökfærslu. Sjá Hrd. 1995, bls. 2994.


Umbjóðandi minn var ekki á því að gefast upp. Við sendum kæru til Mannréttindanefndar Evrópu vorið 1996. Haustið 1998 ákvað nefndin að taka málið til efnismeðferðar, en í þeirri afgreiðslu fólst að yfirgnæfandi líkur voru á því að kæran næði fram að ganga og íslenska ríkið yrði talið hafa brotið gegn réttindum konunnar.


Nú urðu undur og stórmerki. Undir árslok þetta ár 1998 flutti dómsmálaráðherra frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í athugasemdum var sagt að unnið hefði verið að samningu frumvarpsins í samráði við réttarfarsnefnd. Frumvarpið hafði að geyma tillögur um allnokkrar breytingar á lögunum. Meðal þeirra var tillaga um breytingu á ákvæðinu um bætur til sakaðra manna á þann veg að fellt var niður skilyrðið um að bótakrefjandi þyrfti að sýna fram á að hann hefði fremur verið líklegur til að vera sýkn en sekur af háttsemi. Í staðinn var lagt til að orðalagið yrði með þeim hætti, að fella mætti niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefði valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisti kröfu sína á.


Í athugasemdum með frumvarpinu var enn fremur gefin sú skýring á tillögunni um breytingu á þessu ákvæði að hún væri gerð í samræmi við 5. málsgrein 67. greinar stjórnarskrárinnar, eins og henni hefði verið breytt 1995.[1] Hvergi var hins vegar minnst á að þá hafði Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) tekið til meðferðar mál á hendur íslenska ríkinu vegna brots á sáttmálanum, þar sem reyndi á þetta. Ólíklegt er að þetta hafi farið fram hjá réttarfarsnefndinni, þar sem Markús formaður hennar var kvæntur deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu, en vitneskja um stöðu kæru konunnar þar ytra lá auðvitað fyrir í ráðuneytinu. Frá þessu virðist ekki hafa mátt segja þegar frumvarpið var samið og athugasemdirnar með því.


Máli konunnar lauk síðan með sáttargerð á árinu 2000, sem fulltrúar MDE höfðu milligöngu um. Íslenska ríkið bað konuna formlega afsökunar á að efast hefði verið um sakleysi hennar og réttmæti sýknudómsins. Að auki fékk hún greiddar miskabætur. Ítarleg frásögn af málinu og lyktum þess birtist í Morgunblaðinu 25. ágúst 2000. Það hafði tekið konuna mörg ár að ná fram réttlæti sér til handa. Það tókst að lokum. Svo er fyrst og fremst þrautseigju hennar sjálfrar fyrir að þakka. Aðrir Íslendingar munu í framtíðinni, fyrir hennar tilverknað, búa við meira réttaröryggi en hún naut, fyrst í stað.


Ekki veit ég gjörla hverjar voru hvatir Markúsar Sigurbjörnssonar til þess að leggjast gegn þessum réttarbótum þegar ég flutti tillögu um þær á vettvangi réttarfarsnefndar. Ljóst er samt að þar var einhver draugagangur á ferðinni. Draugurinn sá dagaði svo uppi þegar ekki varð lengur hjá því komist að breyta þessu. Það er að mínum dómi eitthvað mikið að siðferðisvitund þeirra sem eru tilbúnir að beita sér gegn svo sjálfsögðum réttarbótum sem hér um ræðir.


6. Endurupptaka Geirfinnsmáls


Á árinu 1994 óskaði Sævar Ciesielski eftir endurupptöku á svonefndu Guðmundar- og Geirfinnsmáli, þar sem hann og aðrir sakborningar höfðu fengið þunga fangelsisdóma fyrir tvö manndráp. Á þessum tíma var kveðið svo á í lögum að Hæstiréttur sjálfur skyldi fjalla um slíkar beiðnir. Skemmst er frá því að segja að rétturinn synjaði þessari beiðni með ákvörðun hinn 15. júlí 1997. Rökstuðningurinn fyrir þessari synjun þekur um 250 blaðsíður og hefur í stíl og lengd öll einkenni Markúsar Sigurbjörnssonar. Má telja fullvíst að hann hafi samið þetta.


Beiðninni var synjað á þeirri forsendu að ekki hefðu komið fram ný gögn frá því dómurinn var kveðinn upp á árinu 1980. Í lögum væri gert að skilyrði fyrir endurupptöku að slík gögn hefðu komið fram. Í synjun réttarins var hins vegar ekki mikið hugað að því, hvort brotinn hefði verið réttur á sakborningunum á forsendum, sem þegar lágu fyrir við uppkvaðningu dómsins. Lögin heimiluðu endurupptöku á slíkum forsendum, þó að þeim heimildum hafi verið þröngur stakkur skorinn.


Í ágúst 1997 skrifaði ég blaðagrein um þessa afgreiðslu Hæstaréttar á erindi Sævars. Rakti ég í greininni að synjun réttarins hefði í sjálfu sér verið vel samin og þar farið skipulega yfir sakaratriði sem beiðnin var sögð reist á. Aðalefni greinar minnar var hins vegar að benda á nauðsyn þess að heimila endurupptöku mála þó að engin ný gögn hefðu komið fram ef ljóst væri orðið að dómur hefði ekki uppfyllt þær sönnunarkröfur sem giltu í sakamálum. Nefndi ég í greininni í átta töluliðum þau atriði sem áfátt hefði verið í þessum dómi á sínum tíma.


Þegar málið var svo loks endurupptekið fyrir atbeina endurupptökunefndar í ársbyrjun 2017 var ég skipaður verjandi eins hinna sakfelldu. Kom þá í minn hlut að kynna mér málsgögnin ítarlega. Þá sá ég að staðhæfingar í synjuninni 1997 um að ekki hafi komið fram ný gögn í málinu voru einfaldlega ekki réttar. Meðal þeirra nýju gagna sem fram voru komin voru dagbækur fangelsisins við Síðumúla frá þeim tíma, er sakborningarnir sátu þar í gæsluvarðhaldi í einangrun. Þar kom m.a. fram að lögreglumennirnir sem önnuðust rannsóknina höfðu hvað eftir annað komið í heimsókn í fangelsið og setið í lengri eða skemmri tíma inni hjá sakborningunum eða farið með þá í bílferðir án þess að hafa gert um það lögregluskýrslu, eins og þó var skýrt kveðið á um í lögum að þeim væri skylt að gera. Þetta skipti auðvitað meginmáli um gildi þeirra játninga sem upphaflegur dómur hafði verið reistur á. Við blasti að lögreglumennirnir höfðu haft ómæld tækifæri til að kalla þessar játningar fram í viðtölum við sakborninga sem engar skýrslur voru til um. Þeir hefðu ekki bókað neitt um „samtöl“ sín við fangana, fyrr en þeir voru tilbúnir til að segja eitthvað sem lögreglumönnunum líkaði að heyra.


Við upphaflega meðferð málsins hafði einungis legið fyrir ófullkominn útdráttur af dagbókum fangelsins fyrir takmarkað tímabil en ekki dagbækurnar sjálfar. Þær voru hins vegar meðal þeirra gagna sem lágu fyrir þegar endurupptökubeiðni Sævars Ciesielskis var til meðferðar á árinu 1997. Er því að mínum dómi ekki vafi á að lagaskilyrðum fyrir endurupptökunni var fullnægt. Við það bættust svo hrópandi staðreyndir um að sakfellingin á sínum tíma hafði, miðað við þau gögn sem þá lágu fyrir, verið algerlega óforsvaranleg, eins og ég benti á í upptalningu minni í greininni 1997. En þetta hafði engin áhrif á Markús Sigurbjörnsson. Hann samdi bara, eins og honum hefur ávallt verið svo lagið, mikinn langhund sem fáir höfðu þrek til að lesa af nákvæmni. Ljóst var að þá, eins og svo oft annars, var niðurstaðan fundin fyrst en rökstuðningurinn smíðaður á eftir og því þá sleppt sem ekki hentaði niðurstöðunni. Þetta er verklag sem maðurinn hefur ítrekað beitt gegnum árin til að ná fram niðurstöðu sem hann af einhverjum annarlegum hvötum hefur viljað ná fram hvað sem lagareglum liði.


7. Fjárhagslegir hagsmunir


Að því verður nú vikið, að Markús Sigurbjörnsson átti umtalsverða peningaeign eftir að hann tók arf eftir foreldra sína, líklega um eða eftir árið 2000. Hann fól Glitni banka hf. sjóði sína til varðveislu og ávöxtunar. Upplýsingar um þetta komu fram í fjölmiðlum í desember 2016, en þá hafði sjónvarpsþátturinn Kastljós komist yfir upplýsingar um fjármálaumsvif dómara í Hæstarétti í gegnum Glitni banka hf. mörg ár aftur í tímann. Um Markús kom þar í ljós að hann hefði átt töluverða peningaeign eftir arftökuna. Honum bar skylda til að afla samþykkis fyrir þessu eignarhaldi hjá nefnd um dómarastörf samkvæmt reglum sem um þetta giltu. Það gerði hann ekki og braut þar með gegn skyldum sínum í því efni.


Í desember 2016 komu fram upplýsingar sem sýndu að Markús Sigurbjörnsson átti í byrjun árs 2008 yfir 60 milljónir króna, sem hann hafði í svonefndri eignastýringu í Glitni banka. Samkvæmt gögnum, sem fram komu þá, hafði hann gert samning um eignastýringu við bankann 18. ágúst 2008, um einum og hálfum mánuði fyrir bankahrunið. Ekki kemur fram í samningnum, hver þá hafi verið heildareign Markúsar, sem samningurinn tók til. Á árinu 2008 höfðu í eignastýringunni fyrir og eftir þessa samningsgerð átt sér stað kaup og sala á verðbréfum. Er enginn vafi á að um þetta leyti átti dómarinn tugi milljóna á reikningi sínum fyrir þessa eignastýringu. Svo virðist að við hrun bankanna í byrjun október 2008 hafi hann ekki milliliðalaust átt hlutafé í Glitni banka. Hins vegar er fullvíst að hann hafi átt háar innistæður í verðbréfasjóðum Glitnis, sem að líkindum áttu hluti í bönkunum. Um þetta liggja hins vegar ekki fyrir handfastar upplýsingar svo vitað sé. Hæstiréttur setti að vísu reglur um skyldu dómara til að veita upplýsingar um fjármál sín sem tóku gildi í ársbyrjun 2017, eftir að framangreindar upplýsingar höfðu komið fram. Var kveðið svo á að unnt væri að fá upplýsingar um slíka eignaraðild þeirra aftur í tímann en þá bara um þau atriði sem upplýsingaskyldan tók til. Undan henni voru hins vegar þegnar upplýsingar um eignir í verðbréfasjóðum, þó að slíkir sjóðir hefðu að öllum líkindum átt hluti í bönkum fyrir og eftir hrun þeirra. Var undanþágan rökstudd með því að dómararnir, sem áttu hlut í bönkunum í gegnum þessa sjóði, hefðu ekki farið með atkvæðisrétt á fundum þeirra félaga sem sjóðirnir áttu hluti í! Eins og það skipti máli um mat á vanhæfi?


Ári síðar (í desember 2017) setti nefnd um dómarastörf reglur um aukastörf héraðsdómara, landsréttardómara og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum og skráningu þeirra. Þessar reglur eru nr. 1165/2017. Í þeim er m.a. að finna ákvæði um skyldu dómara til að tilkynna nefndinni um eignarhluta sína í félögum og jafnvel leita samþykkis hennar í vissum tilvikum. Síðan var svohljóðandi ákvæði í 5. mgr. 7. gr. reglnanna: „Leggi dómari fé í fjárfestingarsjóð, verðbréfasjóð eða sambærilegan sjóð sem veitir dómara hlutdeild í sjóði um sameiginlega fjárfestingu, samanber lög nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, er honum ekki skylt að tilkynna nefnd um dómarastörf þá ráðstöfun fjár.“


Hér blasir við að þessi undarlega regla um undantekningu frá upplýsingaskyldu dómaranna var sérregla sem hafði það markmið að losa Markús Sigurbjörnsson frá skyldu til að gefa upplýsingar um sínar eignir í bönkunum aftur í tímann, sem sýnilega höfðu verið meiri en annarra dómara við hrunið. Hann hafði samt án vafninga setið í dómsmálum, sem hann var sýnilega vanhæfur í vegna þess arna.


Fyrir liggur að upplýsingar um fjármál dómara sem fram komu í desember 2016 hafa orðið ýmsum sakborningum í „hrunmálum“ tilefni til að senda kærur til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna vanhæfis dómara. Nú eru teknar að berast fréttir af því að slíkar kærur séu taldar tækar til meðferðar fyrir dómstólnum. Þetta kemur ekki á óvart. Það getur ekki verið í lagi að mönnum hafi verið stætt á að setjast sem dómarar í mál, þar sem sakargiftir hljóða um að sakborningar hafi fellt bankana, þegar dómararnir sjálfir hafa tapað fé við fallið. Þá ætti ekki að skipta öllu máli hvort viðkomandi dómari tapaði á falli þess banka sem hann fjallar um sem dómari eða einhverjum hinna bankanna. Fróðlegt verður að sjá hvort fleiri athugasemdir sem að þessu lúta muni berast frá Evrópu á næstunni.


Mér er nær að halda að eitt grófasta dæmið í tilviki Markúsar hafi verið mál nr. 478/2014, en Hæstiréttur kvað upp dóm í því hinn 3. desember 2015. Þar höfðu nokkrir fyrrverandi starfsmenn Glitnis banka, sem þar höfðu starfað við eignastýringu, verið lögsóttir fyrir refsiverða háttsemi á þeim vettvangi. Markús Sigurbjörnsson átti sæti í þeim dómi. Hann hefur sýnilega verið í hefndarhug gagnvart þessum sakborningum fyrir að hafa borið einhvers konar ábyrgð á fjárhagslegu tjóni hans og talið að upplýsingar um fésýslu þessa banka í hans eigin þágu myndu ekki upplýsast. Af þessum ástæðum var einnig brýnt fyrir hann að sett yrði sérregla um hans hagsmuni þegar loks varð óhjákvæmilegt að ákveða að dómarar þyrftu að gefa upplýsingar um fjármál sín. Það sem er kostulegt við þetta er að hann skyldi fá fólkið í dómaraelítunni í kringum sig til að standa að þessu með sér. Sýnir það kannski frekar en margt annað hverjum heljartökum hann hafði náð á þessu fólki, sem virðist bara hafa setið og staðið eins og hann vildi. Þessi atburðarás kringum Markús Sigurbjörnsson sýnir að hann hefur ekki miklar áhyggjur af því, hvort málsaðilar njóti hlutlausrar málsmeðferðar. Hugur hans er bundinn við það sem kemur sér best fyrir hann sjálfan og hvað hann sjálfur muni komast upp með að gera. Þetta er með ólíkindum, því það á að vera metnaðarmál hjá þeim sem fara með dómsvald að tryggja hlutlausa stöðu sína við málsmeðferð, bæði að formi og efni.


Menn geta svo velt því fyrir sér, hvernig á því stendur að Markús Sigurbjörnsson skuli ekki einfaldlega upplýsa opinberlega um þessi fjármál sín á þeim árum sem hér skipta máli. Hvað hefur maðurinn að fela?


8. Skipun í dómaraembætti 2004


Í 14. kafla bókar minnar „Í krafti sannfæringar“ lýsi ég ótrúlegri atburðarás í tengslum við umsókn mína um dómaraembætti við réttinn á árinu 2004. Þá gengu Markús Sigurbjörnsson og dómararnir, sem bersýnilega höfðu „selt honum sálu sína“, til athafna sem höfðu það markmið að hindra skipun mína. Er ekki nokkur vafi á að með þessari athafnasemi braut þetta fólk gegn lagaskyldum sínum á afar grófan hátt. Háttsemin fór berlega með refsiverðum hætti gegn lögum.


Í stuttu máli fólust þessar aðgerðir í því að reyna fyrst að fá mig til að sækja ekki um embættið. Var þá haft í hótunum við mig um að skaða mig með umsögn réttarins um umsækjendur, en þá var það á verksviði réttarins að veita slíka umsögn. Þegar ég lét ekki segjast, var tekið til við að leita til annarra lögfræðinga með tilmælum um að þeir sæktu einnig um embættið í þeim tilgangi að skáka mér. Var þeim þá heitið fyrirgreiðslu í væntanlegri umsögn. Nokkrir slógu til. Umsögn réttarins varð svo með þeim hætti sem hótað hafði verið. Þrátt fyrir þetta skipaði Geir Haarde, settur dómsmálaráðherra, mig í embættið.


Þetta framferði dómara við æðsta dómstól þjóðarinnar var allt með miklum ólíkindum og er enginn vafi á að hér var Markús Sigurbjörnsson að verki. Líklega vissu hinir ekki um alla athafnasemi hans, þó að mér sýnist að gamall vinur minn Gunnlaugur Claessen hafi verið samverkamaður Markúsar alla leið. Um frekari lýsingu þessara atvika vísa ég til fyrrgreindrar bókar minnar, bls. 267-289.


Þessi verknaður bendir til þess að samverkamenn Markúsar við réttinn hafi verið áfram um að lúta vilja hans. Hér virðast þeir hafa verið rændir ráði og rænu við að fylgja honum til þessara ótrúlegu verka.


Þegar ég velti fyrir mér ástæðunum fyrir þessu framferði dettur mér helst í hug að Markús hafi verið þungur í sinni yfir því að gamall vinur hans Ragnar Hall skyldi ekki hafa verið skipaður í dómaraembætti við réttinn árið á undan, 2003. Þá var yngri maður skipaður, Ólafur Börkur Þorvaldsson, sem reyndar hefur sýnt sig í að vera einn af bestu lögfræðingunum við dómstólinn á starfstíma sínum. Skipun Ólafs Barkar í embættið hafði hins vegar ekki hlotið náð í umsögn réttarins það ár, sem setti tvo aðra umsækjendur í forgang. Það hefur svo líklega auðveldað verknaðinn gagnvart mér árið 2004 að Ólafur Börkur er frændi Davíðs Oddssonar sem var forsætisráðherra á þessum tíma. Sjálfsagt hefur Markús því getað samið einhvers konar samsæriskenningu um að ráðherrann vildi með skipun okkar Ólafs Barkar komast til áhrifa við réttinn. Þetta var auðvitað einber hugarburður. Umsókn mín um dómaraembætti hafði ekkert með þann góða mann Davíð að gera. Ég einfaldlega ræddi aldrei við hann um að ég hefði hug á að sækja um þetta embætti. Reyndar hef ég aldrei í lögfræðiiðkun minni látið nokkra ytri hagsmuni eða kunningsskap við aðra menn hafa áhrif á verk mín. Lögfræðin er mér kærari en svo. Þetta hlutu gamlir vinir mínir, sem gegndu störfum við réttinn, að vita. Þeir kusu hins vegar frekar að beygja sig undir yfirráð hins valdsækna Markúsar og taka þátt í háttsemi sem braut berlega gegn lögum.


Þegar ég hugsa um þetta núna kemur í huga minn grunsemd um að Markús hafi hreinlega óttast nærveru mína í réttinum, því hann hlaut að vita að hann myndi ekki geta náð neinum andlegum yfirráðum yfir mér. Kannski hefur hann líka óttast að ég kynni að ná til hinna dómaranna á einhvern þann hátt sem ekki hentaði honum. Ummæli hans í samtali við mig sumarið 2004 benda líklega til þess. Þá sagði hann að ég gæti ekki búist við því að koma inn í Hæstarétt á rauðum dregli og heldur ekki á jarðýtu! Slík hætta hefur sýnilega verið ofarlega í huga hans á þessum tíma. Hinir dómararnir reyndust hins vegar svo illa beygðir undir áhrifavald hans að mér tókst aldrei að opna augu þeirra fyrir ástandinu og skynjaði það reyndar ekki sjálfur fyrr en að nokkrum tíma liðnum.


9. Einnota réttarfar í Baugsmálum


Markúsi Sigurbjörnssyni hugnaðist ekki málatilbúnaður ákæruvalds á hendur fyrirsvarsmönnum verslunarrisans Baugs, en mál þetta hófst með kæru Jóns Geralds Sullenbergers sumarið 2002. Dómsmál þetta og tengd mál hafa yfirleitt verið nefnd Baugsmál.


Málið hófst með því að Jón Gerald, sem var búsettur í Bandaríkjunum, leitaði til mín sumarið 2002. Átti hann sökótt við fyrirsvarsmenn stórverslunar Baugs og þá einkum við aðaleiganda hennar og stjórnanda, Jón Ásgeir Jóhannesson. Er að finna allítarlega frásögn af þessu í 12. kafla bókar minnar „Í krafti sannfæringar“, bls. 231-243, sjá einnig bls. 151-152.


Ég gerði ekki mikið fyrir þennan umbjóðanda minn, annað en að höfða mál til heimtu fjárkröfu sem hann taldi sig eiga hjá Baugi. Ég hafði reyndar einnig milligöngu um að hann næði fundi lögreglunnar til að bera fram kæru sína og mætti með honum þangað þegar hann gaf sína fyrstu skýrslu, en fór raunar af vettvangi þegar hún hófst.


Í bók minni segi ég frá ótrúlegum samsæriskenningum sem nú urðu til, algerlega að tilefnislausu. Gengu þær út á að forsætisráðherrann Davíð Oddsson stæði hér að baki aðför að Jóni Ásgeiri og fleirum og væri ég einhvers konar verkfæri í höndum Davíðs, hafandi verið persónulegur vinur hans. Allt var þetta hreinn hugarburður.


Svo fór að ákæra var gefin út á hendur fyrirsvarsmönnum Baugs sumarið 2005. Í henni var að finna ýmsar sakargiftir sem byggðu á upplýsingum sem lögreglan hafði aflað við rannsókn sína en komu upphaflegri kæru Jóns Geralds ekki mikið við. Þessa ákæru sömdu saksóknarar, sem samið höfðu ógrynni af ákærum, sem hlotið höfðu efnislega meðferð fyrir dómi. Þó að þessi ákæra í Baugsmálum væri kannski ekki sérstakt bókmenntaverk var hún ekki lakari en fjöldinn allur af ákæruskjölum, sem komið höfðu fyrir dómstóla og hlotið þar efnismeðferð.

Nú varð hins vegar annað uppi á teningnum. Ákæruefnum í þessum málum var vísað frá dómi í stórum stíl. Aðrar úrlausnir um réttarfarið urðu allar sakborningunum í hag, þó að efni hafi staðið til annars. Þessu lýsi ég í bók minni, „Í krafti sannfæringar“, sjá einkum bls. 236-239. Eins og þar er lýst varð þetta til þess að ég, dómari við réttinn, tók saman yfirlit yfir þessi mál og afgreiðslu þeirra, án þess að geta þess þá hver væri höfundurinn. Kallaði ég yfirlitið „Einnota réttarfar“ og stóð góður vinur minn að því með samþykki mínu að senda það einhverjum hópi manna sem tengdist rekstri þessa máls. Ég birti yfirlitið síðar í viðauka bókar minnar „Í krafti sannfæringar“, sjá þar bls. 378-384.


Segja má að ég hafi hitt naglann á höfuðið með nafngift þessarar samantektar. Aðferðirnar sem Hæstiréttur beitti þar til að slátra þessum málum voru einnota og hafa ekki þótt nothæfar í öðrum málum síðar. Til dæmis reyndu verjendur sakborninga í svonefndum eftirhrunsmálum að vísa til dómanna sem fordæma þegar þeir kröfðust frávísunar á þeim málum. Á það var ekkert hlustað, jafnvel þó að form- og efniskröfur til ákæruskjala hefðu verið auknar við breytingar á lögum á árinu 2008. Slíkum kröfum var öllum hafnað. Réttarfarið í Baugsmálunum var sannarlega einnota.


Enginn vafi er á að Markús Sigurbjörnsson stjórnaði þessum afgreiðslum Hæstaréttar þó að hann sæti ekki sjálfur í öllum málunum. Hann var á þessum tíma búinn að ná einhvers konar andlegum yfirráðum yfir flestum samdómara sinna. Gerðu þeir þá það, sem hann stýrði þeim til að gera, jafnvel þó að þeir kunni sjálfir að hafa talið sér trú um að þeir hafi unnið að þessum málum af því hlutleysi, sem þeir vissu að þeim bar að virða.


Ástæðurnar fyrir þessu eru líklega margslungnar. Í „Einnota réttarfari“ eru í lokin settar fram tilgátur um þær. Við bætist síðan síðari tíma vitneskja um fjármálaumsvif Markúsar Sigurbjörnssonar á þessum tíma. Hann hafði, eins og fyrr sagði, falið Glitni banka að ávaxta fjármuni sína. Sakborningarnir í Baugsmálum voru að hasla sér völl í þeim banka, þar sem þeir síðan náðu yfirráðum. Það var ekki heppilegt fyrir þá sem áttu verulegra hagsmuna að gæta í bankanum ef stórir hluthafar yrðu hugsanlega dæmdir fyrir stórfelld fjármálabrot, eins og þarna voru til meðferðar.


Svo hefur líklega einnig skipt máli, að hann áleit þessa sakborninga andsnúna Davíð Oddssyni forsætisráðherra, sem Markús taldi að hefði haft áhrif á skipun dómara á árunum 2003 og 2004, sbr. það sem um þetta sagði í síðasta kafla. Með því að fara þessum silkihönskum um sakborningana í Baugsmálunum taldi hann sig sjálfsagt hafa veitt ráðherranum ráðningu vegna þeirra misgjörða. Hef ég þá í huga að Markús hefur í öðrum tilvikum ekki hikað við að beita valdi sínu til að ná sér niðri á þeim sem ekki hafa viljað beygja sig undir vilja hans. Hvað sem þessu líður er ljóst að eitthvað annað en fylgni við lagareglur réði þessum afgreiðslum.


10. Eftirhrunsmál – umboðssvik


Svo varð bankahrunið. Víst er að Markús Sigurbjörnsson tapaði miklu fé, þó að hann virðist hafa gripið til einhverra fjárráðstafana í ágúst 2008, þegar hann gerði nýjan samning við Glitni banka um stýringu fjármuna sinna, sem kunna að hafa dregið úr tjóni hans. Nú blés vindurinn því úr annarri átt en verið hafði við meðferð Baugsmálanna á árunum 2005-2006. Maðurinn var sýnilega reiður yfir þessu tapi og hefur vísast kennt starfsmönnum bankanna um það.


Ég man að ég varð hissa þegar í ljós kom að bankamenn voru í stórum stíl ákærðir fyrir umboðssvik. Kveðið er á um þetta brot í þeim kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um auðgunarbrot. Þar segir með skýrum hætti í 243. gr.: „Fyrir brot þau, er í þessum kafla getur, skal því aðeins refsa, að þau hafi verið framin í auðgunarskyni.“


Í þessu felst að það er skilyrði refsingar, að talið sé sannað í máli, að fyrir sakborningi hafi vakað með háttsemi sinni að skaða þann, sem hann fór með umboð fyrir og auðga sjálfan sig eða aðra á hans kostnað.


Í 249 gr. er umboðssvikum lýst með þessum hætti: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína …“


Í fæstum þeirra mála, sem höfðuð voru gegn bankamönnum eftir hrun, var minnsta ástæða til að ætla að fyrir þeim hafi vakað með háttsemi sinni að valda viðkomandi banka fjártjóni í þágu sjálfra sín eða annarra. Við blasti að sakborningarnir voru þvert á móti að reyna að bjarga bönkunum, þó að menn geti haft mismunandi skoðanir á því hversu líklegar aðgerðir þeirra voru til þess. Það voru því engar forsendur til að telja þá hafa brotið gegn ákvæði almennra hegningarlaga um umboðssvik. Má reyndar geta þess að engin önnur þjóð, sem telst skyld okkur að lögum og hefur sambærilegt refsiákvæði í gildi, lét sér við hliðstæðar aðstæður detta í hug að ákæra fyrir þetta brot á grundvelli hliðstæðra lagaákvæða við 249. gr. hinna íslensku hegningarlaga, jafnvel þó að þar hafi komið upp mál sem telja má sambærileg hinum íslensku málum. M.a. töldu Danir efni ekki standa til þess, þó að ekki væri í þeirra löggjöf að finna ákvæði á borð við fyrrgreinda 243. gr. íslensku laganna, sem tilgreint var að framan. Skilyrðin fyrir ákærum og sakfellingu fyrir umboðssvik voru samkvæmt þessu önnur og strangari hér á landi en í Danmörku. Samt höfðust Danir ekki að.


En æðstiprestur var reiður. Og fyrir því verða lögin að víkja. Ekki veit ég hvernig sú hugmynd kom upp hjá sérstökum ríkissaksóknara að haga ákærum með þessum hætti. Óþægilegar grunsemdir vakna um að óviðeigandi samtöl kunni að hafa átt sér stað áður en þær ákvarðanir voru teknar. Allavega var sýnilega furðulega góður grundvöllur í réttinum fyrir áfellisdómum á grundvelli þessa hegningarlagaákvæðis. Sakfellingar urðu með þeim einfalda hætti að breyta efni ákvæðisins. Í stað skilyrðisins um auðgunartilgang kom allt annars konar skilyrði. Nóg var til refsingar að telja að ákærði hefði valdið verulegri hættu á að bankinn tapaði peningum með þeim gjörningi sem ákæra tók til. Að auki var smíðuð sú hugmynd að tjónshættu hefði verið valdið með því að lána kaupanda hlutabréfa í bankanum, sem bankinn átti sjálfur, fé til kaupanna án annarra trygginga en veðs í bréfunum sjálfum. Þetta var frekar undarlegt. Hver var áhættan? Hver tapaði fé? Ef bréfin féllu í verði eftir söluna hlaut það að vera kaupandinn en ekki bankinn sem tapaði. Og ef bankinn hefði ekki selt bréfin heldur átt þau sjálfur áfram, hefði hann einfaldlega tapað andvirði þeirra þegar bankinn fór á hliðina og bréfin urðu verðlaus. Í sumum tilvikum varð bankinn því hreinlega betur settur með því að hafa selt bréfin áður en það gerðist.


Það eru ekki bara samdómarar Markúsar í Hæstarétti, sem hafa beygt sig undir þau óhæfuverk sem flestir þessara dóma eru. Stærstur hluti lögfræðielítunnar í landinu freistar þess að réttlæta þessa vitleysu. Kannski skýringuna á þeirri undirgefni við hinn valdamikla dómstól sé að finna í því að Markús og félagar náðu á árinu 2010 undir sig valdinu til að ráða því hverjir yrðu skipaðir í lausar dómarastöður og þá ekki bara við Hæstarétt, heldur einnig stöður við aðra dómstóla í landinu. Og lögfræðingarnir, sem margir hverjir huga að frama sínum innan dómskerfisins, vilja ekki styggja þá sem ráða örlögum manna á þeim vettvangi. Og meira að segja málflytjendurnir sem horfa á þetta þegja flestir þunnu hljóði. Ástæðan er í flestum tilvikum sú að þeir telja, og það líklega með réttu, að skjólstæðingar þeirra verði látnir líða fyrir ef lögmennirnir koma sér í ónáð hjá þessum valdhöfum í réttarkerfinu. Hrikalegt en klárlega satt. Um það hef ég fengið vissu af samtölum við fjölda starfandi lögmanna.


Um þetta efni vísa ég til nánari skoðunar til bókar minnar „Með lognið í fangið“, bls. 114-124 og ritgerðar minnar „Í auðgunarskyni“, sem birtist í hátíðarriti Orators 16. Febrúar 2019 og á heimasíðu skrifstofu minnar jsg.is. Á síðarnefnda staðnum er einnig að finna greinarnar „Veruleg fjártjónshætta“ og „Vitnisburður dómarans“.


Það blasir við að eitthvað meira en lítið er athugavert við dómara, sem reynist vera tilbúinn til að dæma meðbræður sína til langrar fangelsisvistar án fullnægjandi lagastoðar og fá að auki starfsbræður sína til að taka þátt í slíku.


11. Óheilbrigt samfélag


Ég hef að framan haft orð á því hvernig samfélag Markús Sigurbjörnsson hefur myndað úr lögfræðingahópnum í kringum sig. Þar hefur myndast eitthvað sem venjulegt fólk kallar klíku, þar sem hver og einn reynir að gera hinum til geðs. Ég hef notað orðið „elíta“, sem er kurteislegra en „klíka“. Hópurinn er stærri en dómarahópurinn í Hæstarétti. Til dæmis má telja marga kennara við lagadeild Háskóla Íslands með, a.m.k. þá sem vilja halda opnum möguleikum sínum til framgangs í dómskerfinu.


Þeir, sem hafa starfað við réttinn í félagi við Markús, eru flestir orðnir samdauna þeim vinnubrögðum sem hafa tíðkast, þar sem hlutlægni og málefnalegum heilindum er einatt vikið til hliðar til að ná fram æskilegum niðurstöðum. Það er hreinlega líkast því að þetta fólk tali sig stundum saman um hver sé æskileg niðurstaða og starfið snúist síðan um að setja saman rökstuðning fyrir henni. Kannski að þessi sé raunin í tveimur dómum frá í desember 2017, þar sem umsækjendum, sem sóttu um dómarastöður en fengu ekki, voru dæmdar miskabætur af þeim sökum. Þessir dómar voru sýnilega liður í valdabaráttu elítunnar við handhafa framkvæmdavalds og höfðu ekkert með lögfræði að gera. Vinnubrögðin sýna að niðurstaðan verður til á undan rökstuðningnum. Þannig mega lögfræðingar aldrei vinna. Niðurstöður þeirra eiga ávallt að helgast af þeirri nauðsyn sem felst í heiðarlegri rökleiðslu. Ég er af þessum ástæðum hræddur um að áhrifa Markúsar eigi eftir að gæta við réttinn um ókomin ár meðan þetta fólk gegnir áfram störfum þar. Hér skulu menn hafa í huga að þeir sem hafa tekið þátt í að gera hluti, sem þeir innst inni vita að þeir hefðu ekki átt að láta hafa sig í, eiga auðveldara með gera hið sama á ný. Í slíkum endurtekningum geta meira að segja falist eins konar réttlætingar á fyrri misgjörðum. Hér kemur í hugann orðtakið ágæta um að erfitt sé að kenna gömlum hundi að sitja.


Skondið dæmi má nefna um það hvernig þetta samfélag vinnur. Eins og lesandanum kann að vera kunnugt, höfðaði Benedikt Bogason hæstaréttardómari meiðyrðamál á hendur mér eftir að bók mín „Með lognið í fangið“ kom út haustið 2017. Taldi hann notkun mína á orðinu „dómsmorð“ um dóm, sem hann ásamt fleiri dómurum hafði kveðið upp, fela í sér ærumeiðingu í hans garð. Vorið 2018 kom þetta mál til flutnings í Héraðsdómi Reykjaness og sat dómstjórinn Gunnar Aðalsteinsson sem dómari í málinu. Gunnar er afar vel látinn dómari með margra áratuga vammlausan feril. Þó að hann hafi á þessum tíma verið farinn að nálgast starfslok, hafði hann aldrei verið kvaddur inn til setu sem varadómari í Hæstarétti en flestir héraðsdómarar, sem eitthvað voru taldir kunna fyrir sér í lögfræði, höfðu notið þess trúnaðar að starfa sem varadómarar og sumir oft. Þegar aðalflutningur í máli Benedikts gegn mér fór að nálgast vék allt í einu svo við að Gunnar var í eina skiptið á ferli sínum kvaddur til setu í hæstaréttarmáli. Það duldist engum sem til mála þekkja að núna átti að reyna að „strjúka“ dómaranum í því skyni að minnka líkurnar á að hann dæmdi gegn stefnandanum Benedikt í málinu gegn mér. Seta hans sem dómari í máli Benedikts hefði þvert á móti átt að leiða til þess að hann væri alls ekki á þessum tíma kvaddur til svona samneytis við dómarana í Hæstarétti. Gunnar lét þetta ekki hafa áhrif á sig og sýknaði mig af kröfum hæstaréttardómarans, eins og ég tel að nokkuð augljós rök hafi mælt fyrir um. Þessi atburðarás var kostuleg og líklega einkennandi fyrir þá sem numið hafa siðfræði í smiðju Markúsar Sigurbjörnssonar.


Markús hefur allan sinn feril verið mjög áhugasamur um nýskipan dómara, ekki aðeins í Hæstarétti heldur einnig í dómstóla á lægra dómstigi. Hann var ávallt kominn í símann þegar dómaraskipun var á döfinni til að makka fram og aftur um málið. Þetta veit ég vel því að nokkrum sinnum á árunum áður hringdi hann til mín til að fá mig til að sækja um í Hæstarétti. Á þeim tíma vildi hann vera vinur minn, þó að það hafi breyst síðar.


Hann linnti svo ekki látum fyrr en hann náði að koma fram lagabreytingu á árinu 2010 sem fól það í sér að elíta hans fékk raunveruleg yfirráð yfir vali milli umsækjenda um dómaraembætti. Mörg dæmi eru síðan um misbeitingu á þessu valdi og þá ávallt til að láta skipa vildarvini, eins og til dæmis gamla skólabræður. Það hefur svo ekki sakað ef viðkomandi hefur verið búinn að sverja sig inn í hópinn, eins og alltaf hefur verið raunin um þá sem hafa hlotið skipun. Með þessum hætti hafa tökin verið hert á yfirráðunum yfir dómstólunum.


Það gat verið magnað að verða vitni að aðferðunum sem notaðar voru til að ná tökum á samstarfsmönnunum. Ekki er vafi á að annríkið í Hæstarétti auðveldaði Markúsi þetta, því hann réði miklu betur við þetta annríki en hinir. Stundum birtist hann þeim eins og bjargvættur þegar álagið var að sliga þá og létti þá undir með þeim í störfum sem þeir réðu illa við. Svo voru dæmi um að hann næði undirtökum í samskiptum með því að hæðast fimlega að þeim sem í hlut átti. Ef til dæmis skipaður var í réttinn dómari sem alla sína tíð hafði eingöngu dæmt í sakamálum en þurfti nú að fást við snúin einkamál, var oftast létt verk fyrir „vélmennið“ að hæðast að textum sem viðkomandi hafði samið og hjálpa svo upp á sakirnar með endurbótum sem greinilega tóku uppkastinu fram. Dómarar sem svona hafði staðið á um voru fljótlega farnir að lúta Markúsi með einhverju, sem helst má líkja við lotningu.


Svo er annað, sem að mínum dómi er mjög til þess fallið að styrkja yfirráðin yfir hópnum. Markvisst hefur verið reynt að dylja persónuleg einkenni einstakra dómara við dómsýsluna. Ég var og er á þeirri skoðun að dómarar eigi að greiða atkvæði með skriflegum hætti, þannig að hver og einn standi fyrir sínu atkvæði sjálfur, jafnvel þó að hann kunni að fallast á forsendur frummælandans að öllu leyti. Dómaranum bæri þá með þessum hætti að gera grein fyrir sjónarmiðum sem ekki færu saman við sjónarmið hinna og þá einnig í tilvikum þar sem niðurstaðan yrði hin sama. Þessi aðferð stuðlar að ríkari persónulegri ábyrgð dómara á verkum sínum og þjónar því markmiðum hins fjölskipaða dómstóls. Þessi háttur er hafður á víða erlendis, eins og til dæmis í Noregi, Bandaríkjunum og raunar einnig við Mannréttindadómstól Evrópu.


Þetta vildi Markús Sigurbjörnsson ekki heyra minnst á. Mér er heldur ekki grunlaust um að flestir hinna hafi einnig verið ánægðir með að geta falið sig í hópnum með þeim hætti að taka bara þátt í dómi hópsins en þurfa ekkert að segja sérstaklega um sín sjónarmið. Annríkið varð þá ekki eins yfirþyrmandi og verið hefði ella.


Mér var legið á hálsi fyrir að skrifa mun fleiri sératkvæði en hinir meðan ég starfaði við dómstólinn. Hvers vegna ætli það hafi verið? Það var auðvitað vegna þess að ég reyndi ávallt að fylgja mínum eigin skoðunum á lögfræðinni í málinu, sem til meðferðar var og þá auðvitað eftir að hafa rætt hin mismunandi sjónarmið við hina í því skyni að jafna ágreining. Væri hann ennþá til staðar eftir slíkar umleitanir, taldi ég það skyldu mína að standa með sjálfum mér og greiða atkvæði í samræmi við mína eigin sannfæringu en ekki hinna.


Í tengslum við þetta ættu menn að velta því fyrir sér hvernig á því standi að dómararnir séu nánast án undantekninga sammála um niðurstöðu þess máls sem dæmt er, sama hvort þrír, fimm eða sjö sitja í dómi? Borin eru upp við réttinn snúin lögfræðileg álitaefni sem aðila greinir á um. Þeir tefla fram lærðum málflutningsmönnum til að gera grein fyrir sínum málstað og oft er mikill vafi á ferðinni, sem erfitt getur verið að leysa úr. Hvers vegna eru dómararnir samt alltaf sammála? Kostulegt. Þetta segir meira en mörg orð um starfsandann í hópnum. Menn eru ekki með neitt múður. Lesandinn getur svo gamnað sér við að giska á hver dómaranna hafi haft mest áhrif við úrlausnina.


Það er líka athyglisvert að skoða hvernig ferilskrá einstakra dómara hefur þynnst út í seinni tíð á heimasíðu réttarins. Kannski má skoða þetta sem lið í að draga úr áherslu á einstaklingsbundna hæfni dómara, því nákvæm lýsing á starfsferli þeirra kann oft að segja nokkuð til um slíkt. Það er líka auðveldara að velja góðan vin eða skólabróður í embætti ef ekki er gert mikið úr fyrri afrekum í starfi.


12. Þöggun


Svo sem ég gat um í upphafi þessarar greinar hef ég, eftir að ég lét af störfum sem dómari við Hæstarétt á árinu 2012, fjallað mikið um dómstólinn og þá gagnrýnt það sem ég tel að aflaga hafi farið. Meðal annars er efni sem að þessu lýtur að finna í fjórum bókum mínum, Veikburða Hæstiréttur (2013), Í krafti sannfæringar (2014), Með lognið í fangið (2017) og When Justice Failed (2018). Þá hef ég skrifað um þetta fjölmargar greinar í lögfræðitímarit, önnur tímarit og dagblöð. Það efni hefur oftast einnig verið birt á netinu. Þessi athafnasemi hefur ekki farið framhjá mörgum, sem hafa látið sig dómsýslu varða.


Einhver hefði haldið að háskólasamfélagið hefði átt að fagna þessari gagnrýni og efna til umræðufunda í tilefni hennar. Hér átti fyrrverandi dómari við réttinn í hlut. Var nú ekki sjálfsagt að kalla þrjótinn til og láta hann standa fyrir máli sínu á fræðilegum nótum? Þetta varð svo sannarlega ekki raunin. Lagadeildir háskólanna og þá einkum lagadeild Háskóla Íslands hafa kerfisbundið reynt að þegja gagnrýni mína í hel. Ástæðan blasir við. Menn finna ekki röksemdir gegn þessari gagnrýni. Það er líka svo, að sá einstaklingur sem gagnrýnir starfsemi á borð við þessa, verður að hafa heiðarleika, sannsögli og vel rökstuddar ályktanir að leiðarljósi. Hann nýtur ekki stuðnings þöggunarstofnana. Hann verður eingöngu að treysta á sjálfan sig. Halli hann réttu máli verður hann veginn og léttvægur fundinn.


Mér er kunnugt um að kennarar við lagadeild Háskóla Íslands hafa flestir verið vígðir inn í elítuhópinn sem stýrir Hæstarétti. Mér hefur líka verið tjáð í einkasamtölum að ráðabruggið um að þegja mig niður eigi rót sína að rekja til dómaranna við réttinn. Þar hefur Markús sjálfsagt fremur öðrum stjórnað. Bæði er það svo að hann sjálfur hefur alla tíð notað tækni þagnarinnar og aldrei viljað tjá sig opinberlega um málefni, sem að honum beinast. Hann náði svo að sýna sérstakt hugarfar sem beindist að persónu minni eftir að bók mín kom út á árinu 2014. Áhugasamur lesandi getur flett upp í bók minni „Með lognið í fangið“, bls. 30, þar sem vikið er að barnalegri framkomu Markúsar í þeirri viðleitni að sýna mér óvild.


Nú þegar hafa birst nokkur dæmi um að fræðimenn við Háskóla Íslands hafi verið tilbúnir til að brjóta gegn fræðilegum heiðri sínum í því skyni að verða við tilmælunum um þöggun gagnvart mér. Ég nefndi dæmi um þetta í lítilli grein á heimasíðu skrifstofu minnar, jsg.is, undir fyrirsögninni „Þöggun“. Ég þekki fleiri dæmi um að reynt hafi verið að skauta yfir störf mín og starfsferil í skrifum svonefndra fræðimanna í lögfræði. Ég nenni ekki að tíunda þau, því þetta er ómerkilegt í mínum huga. Það sýnir samt sjúkt hugarfar þeirra sem að þessu standa.


13. Til hvers að fjalla um?


Svo má að lokum spyrja. Til hvers að fjalla um þennan mann og starfsferil hans í dómskerfinu núna? Er hann ekki að hætta? Er ekki rétt að láta hann bara í friði?


Svar mitt við því er að ég tel að það hafi þýðingu fyrir framtíðina að taka þetta saman. Að vísu er ekki líklegt að allir áhrifamiklir og valdsæknir menn muni í framtíðinni draga af þessu lærdóma um sjálfa sig. Jafnvel ekki þeir, sem enn kunna að sitja í Hæstarétti eða öðrum valdastofnunum ríkisins. Umfjöllunin hefur fyrst og fremst þá þýðingu í mínum huga að hafa áhrif á hina sem oddvitinn vill véla til fylgilags við sig. Áminningin hljóðar hátt og snjallt um að menn eigi að þora að láta jafnan sínar eigin bestu skoðanir og sannfæringu ráða gerðum sínum, sérstaklega þegar farið er með vald sem beinist að samborgurum þeirra.


14. Vænlegasta leiðin


Mín ráð eru þau, að vænlegasta leiðin til að standa gegn svona valdsæknum mönnum og draga úr skaðlegum áhrifum þeirra, sé í fyrsta lagi að lúta ekki óskum þeirra eða kröfum um háttsemi nema þær samrýmist þeim siðalögmálum sem maður vill sjálfur virða. Í öðru lagi ættu menn að vera jafnan reiðubúnir til að andmæla þeim með rökum og í heyranda hljóði svo allt sé opinskátt um hvað málið snýst. Fái annað fólk að fylgjast með kann sá valdsækni að lenda í vandræðum, því hann þarf á aðdáun að halda og missir áhrifavald ef hann verður undir í rökræðum. Þess vegna er algengt að slíkur maður forðist að þurfa að tjá sig mikið í heyranda hljóði. Hann velur fremur „maður á mann“ aðferðina, þar sem hann vegna hæfileika sinna nær gjarnan undirtökunum. Aðferðin er þá að „svæla hann út úr greninu“ og láta hann standa fyrir máli sínu í heyranda hljóði. Þessi aðferð mun ekki breyta þeim manni sjálfum, sem í hlut á, en hún kann að draga úr illum áhrifum hans.

Markmið okkar allra ætti að vera hið sama: Að tryggja að æðsti dómstóll þjóðarinnar starfi af heilindum eftir þeim leikreglum sem um hann gilda í því réttarríki sem við öll viljum að Ísland sé.


Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari

[1] Tilvitnað ákvæði frá 1995 hljóðar svo: „Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.“ Þetta stjórnarskrárákvæði tók gildi 5. júlí 1995 og hafði því tekið gildi þegar Hæstiréttur sýknaði íslenska ríkið af bótakröfu konunnar með dómi í nóvember sama ár.

bottom of page