top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Að gæta orða sinna

Það er eins og íslenska þjóðin hafi orðið fyrir miklu áfalli við 8 marka tap landsliðs okkar í leiknum við Ungverja á Evrópumótinu í handbolta sem nú stendur yfir. Hvers vegna ætli að svo sé? Við erum á þessu móti að etja kappi við mörg af bestu landsliðum heims í handbolta. Það má vissulega fallast á að liðsmenn okkar hafi oft sýnt betri leik en birtist okkur þarna. Við getum hins vegar varla gert fyrirfram ráð fyrir að sigra alla andstæðinga okkar á svona sterku móti. Okkar leikmenn eiga góða daga og slæma eins og gerist í öllum íþróttum. Þetta var einn af þeim slæmu.

 

Ég held að ástæðan fyrir þessu mikla áfalli þjóðarinnar vegna þessa taps eigi aðallega rót sína að rekja til þess að fyrirsvarsmenn liðsins, leikmenn þess sem og fréttamenn og fjölmargir aðrir „sérfræðingar“ hafi verið búnir að skapa allt of glaðbeittar væntingar um sigur okkar manna. Allir töluðu þeir fyrir leikinn eins og það væri öruggt mál að okkar lið myndi sigra. Málið snerist eingöngu um að spá um úrslitin í tölum, þar sem við höfðum alltaf betur. Ég held að menn ættu nú að hugsa ráð sitt. Þegar framundan er leikur við eina af sterkustu þjóðum Evrópu ættum við ekki að gera ráð fyrir því að sigur okkar manna sé fyrirsjáanlegur. Í þessu eins og öðru má fullyrða að menn ættu að gæta orða sinna. Og kannski gætu okkar liðsmenn átt betri dag í kappleikjum sínum ef fyrirfram hefur verið gert ráð fyrir þeim möguleika að viðkomandi leikur kunni að tapast. Fyrirfram sigrar í viðfangsefnum lífsins hafa aldrei kunnað góðri lukku að stýra. Þeir geta miklu fremur lagt álag á keppnismenn okkar sem þeir a.m.k. stundum geta ekki staðið undir. Hér sem endranær er auðmýkt og lítillæti áreiðanlega besta veganestið. Sigur er líka miklu ánægjulegri þegar hann hefur unnist á leikvellinum en ekki í sjálfumgleði okkar fyrirfram.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page