top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Api í framan

Mér finnst rétt að deila með vinum mínum á fasbókinni frásögn af eftirminnilegum atburði frá því í árdaga þegar ég vann á Mogganum en það var fyrsta starfið mitt eftir lögfræðipróf haustið 1973.

 

Aftan við hús blaðsins við Aðalstræti háttaði svo til að lítið port var þar með nokkrum bílastæðum. Innkeyrslan í þetta port var þröng og komst ekki nema einn bíll þar um í einu. Umrætt sinn hafði ég komið til starfa snemma á laugardagsmorgni og lagt mínum gamla en stolta Fólksvagni þarna í portinu.

 

Þegar ég ætlaði að halda á brott undir hádegi kom í ljós að einhver bíleigandi hafði lagt bíl sínum í miðja innkeyrsluna og lokað þannig af fjóra eða fimm bíla fyrir innan, meðal annars minn. Nú voru góð ráð dýr. Ég ákvað að fara aftur inn á ritstjórnina og athuga hvort ég kæmi auga á einhvern sem þarna gæti átt hlut að máli. Ól ég ekki miklar vonir í brjósti um árangur, enda húsið sjö eða átta hæðir og allt eins víst að bílskúrkurinn væri annars staðar í húsinu.

 

En viti menn. Inni á einum blaðamannabás Moggans sat og skrafaði maður sem greinilega var gestkomandi. Ég kom í dyrnar og spurði hvort hann ætti bílinn fyrir aftan húsið. Hann játti því. Bað ég manninn að koma út og færa bílinn svo að ég kæmist á brott. Svo fór ég og settist undir stýri á Fólksvagni mínum.

 

Þegar maðurinn kom út stuttu síðar hafði ég skrúfað niður rúðuna hjá mér, hallaði mér út og ávarpaði manninn: „Hvernig dettur þér í hug að leggja bílnum þínum svona maður minn?“ Erfitt var að ímynda sér að maðurinn ætti svar sem dygði við þessari fyrirspurn svo fráleit var sú háttsemi hans að leggja bíl sínum í innkeyrsluna. En hann fann rétta svarið. Hann gekk að bílnum mínum og horfði smástund niður á ásjónu mína sem stóð hálf út um rúðuopið og sagði: „Heyrðu, þú ert nú eins og api í framan.“ Síðan snerist hann á hæli, settist upp í sinn bíl og ók á brott.

 

Ég er enn að velta því fyrir mér hverju ég hefði átt að svara.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page