Fyrir nokkrum dögum birti ég hér á fasbókinni kvæðið „Þá var ég ungur“ eftir eðalskáldið Örn Arnarson. Það hlaut afar öflugar undirtektir. Hér kemur annað kvæði eftir þennan ljóðasnilling.
AMMA KVAÐ
Ekki gráta unginn minn,
Amma kveður við drenginn sinn.
Gullinhærðan glókoll þinn
geymdu í faðmi mínum,
elsku litli ljúfurinn,
líkur afa sínum.
Afi þinn á Barði bjó,
bændaprýði, ríkur nóg.
Við mér ungri heimur hló.
Ég hrasaði fyrr en varði.
Ætli ég muni ekki þó
árið mitt á Barði?
Man ég víst, hve hlýtt hann hló,
hversu augað geislum sló
og hve brosið bað og dró,
blendin svör og fyndin.
Ég lést ei vita, en vissi þó,
að vofði yfir mér syndin.
Dýrt var mér það eina ár.
Afi þinn er löngu nár.
Öll mín bros og öll mín tár
eru þaðan runnin,
gleðin ljúf og sorgin sár
af sama toga spunnin.
Elsku litli ljúfur minn,
leiki við þig heimurinn.
Ástin gefi þér ylinn sinn,
þótt einhver fyrir það líði.
Vertu eins og afi þinn
allra bænda prýði.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður