45 ár án áfengis
- Jón Steinar Gunnlaugsson
- May 10, 2024
- 1 min read

Fyrir 45 árum, þann 10. maí 1979, hætti ég að drekka áfengi og hef ekki sett dropa af því inn fyrir mínar varir síðan. Og mikið breyttist líf mitt við þetta.
Helsti bjargvættur minn í því verkefni sem ég þarna tókst á hendur var mín ástsæla eiginkona, en við höfðum búið saman frá hausti 1972.
Við eignuðumst fimm börn. Tveir synir fæddust áður en ég hætti að drekka en þrjú eftir það. Ég er viss um að það hefði ekki gerst ef ég hefði haldið áfram áfengisneyslu minni. Líklega hefðum við hjónin þá skilið að skiptum og líf mitt orðið allt annað en raunin varð. Börnin okkar og þeirra börn eru það dýrmætasta sem við eigum.
Þennan dag fyrir 45 árum fór ég í svonefnda meðferð hjá æskuvini mínum Þórarni Tyrfingssyni á Silungapolli hér ofan við Reykjavík. Þar var ég í eina viku og dugði það mér til þeirra betrumbóta á lífi mínu sem að framan greinir. Í meðferðinni lærði ég viss sannindi um sjálfan mig. Ég held að ég hafi alltaf átt erfitt með að trúa ósannindum, hvort sem var um mig sjálfan eða önnur málefni yfirleitt. Á Silungapolli var ég leiddur í sannleikann, sem leiddi til þeirra breytinga á lífi mínu sem ég nefndi. Fyrir þær er ég eilíflega þakklátur.
Mestan þátt í þessum umbótum á samt konan mín.
Ég fæ seint þakkað forsjóninni fyrir það líf sem við hjónin höfum átt saman allan þennan tíma. Ætli einhver samsettur æðri máttur hafi stjórnað þessu? Mér er nær að halda að svo sé.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður